135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

líffæragjafar.

380. mál
[14:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þetta voru mjög skýr svör. Við vitum ekki hve margir vilja vera líffæragjafar á Íslandi af því að við höldum enga skrá yfir það og ekki er lagalega bindandi á nokkurn hátt að vera með líffæragjafakort. Það er þá tóm vitleysa að standa í þessu nema hvað þetta gefur smávísbendingu til aðstandenda sem er svo sem gott mál.

Ég tel að þessi mál séu í ólestri, við verðum að taka á þessu. Kallað er eftir því, bæði af þeim sem stunda lækningar á þessu sviði — ég vil nefna Runólf Pálsson, yfirlækni nýrnalækninga á Landspítalanum, aðstandendur barna sem þurfa á líffærum að halda og nýlegt viðtal við nýrnasjúkling sem beið og taldi það vera eins og að taka þátt í happdrætti að fá nýra eða ekki. Hann sagði: Gefið nýra, grafið ekki? Þetta liggur mjög þungt á fólki. Við verðum að bæta stöðuna. Ég held að við verðum að gera þau kort sem við gefum út í dag lagalega bindandi með einhverjum hætti og tengja þau hugsanlega við ökuskírteini eða fara þá leið að nálgast málið með þeim hætti sem gert er víða annars staðar. Hér á Íslandi er hin lagalega nálgun sú að það er ætluð neitun. Það er ætlað að fólk vilji ekki gefa líffæri sín nema annað komi fram en víða í Evrópu er svokallað ætlað samþykki, þ.e. það er ætlað að fólk vilji gefa líffæri sitt og það nýtist þá öðrum nema hið gagnstæða hafi verið látið í ljós. Nálgunin er því allt önnur víða annars staðar. Það er ætlað samþykki, menn ganga út frá því að fólk vilji gefa líffæri og menn þurfa að hafa fyrir því að neita því ef svo á ekki að vera eða aðstandandinn. Ég tel að það væri leið sem við gætum farið. Ef við gerum það verða þessi líffæragjafakort óþarfi. Staðan er alls ekki góð, hún er afar bágborin af því að þörf er á fleiri líffærum í framtíðinni og það segja allir sérfræðingar.