135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

fjárhagsleg staða Orkusjóðs.

392. mál
[15:07]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þótt ég sé ekki kominn hér til þess að svara fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar utan úr sal að þessu sinni þá get ég samt upplýst hann um að þessi ráðherra er bara yfirleitt alltaf í góðu skapi þótt stöku maður sem sé stundum að angra hann. En það er önnur saga sem tengist ekki leit að heitu vatni.

Ég get þó fullvissað hv. þm. Magnús Stefánsson um að þetta er eitt af því sem mér er nokkuð annt um. Af sérstökum ástæðum er mér haldið við efnið á heimaslóð þar sem mikill áhugi er á leit að heitu vatni. Það er líka svo makalaust að þrátt fyrir að hér fyrr á árum hafi menn talið að sum svæðin væru ísaköld og ekki hægt að draga þar upp heitt vatn þá kemur í ljós með nýrri tækni að hægt er að finna heitt vatn miklu víðar. Sömuleiðis er líka að koma í ljós tækni sem við erum ekki nema að litlu leyti byrjuð að skoða og taka í notkun hér á landi sem gerir það kleift að nota vatn við töluvert lægri hita en menn hafa gert áður m.a. til orkuframleiðslu.

Síðan skiptir líka máli að komin er fram ný bortækni sem gerir það að verkum að auðveldara er að komast í gegnum lög þar sem menn vita af heitu vatni en hafa þurft undan að hverfa áður. Ég nefni Ísafjörð sérstaklega sem dæmi. Í Tungudal vita menn af heitu vatni á töluvert miklu dýpi. Þar var í gegnum erfið surtarbrandslög að fara. Nú eru komnir nýir borar sem sérfræðingar segja mér að eigi að duga til þess. Á þessu ári verður væntanlega látið til skarar skríða í enn eitt skiptið og ég bind miklar vonir við það.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að þau sveitarfélög sem þarna eiga inni upphæðir hjá ríkinu eiga mjög erfitt með að bera þær byrðar. Þetta eru allt saman sveitarfélög þar sem sjávarútvegur er meira en 10% af umsvifunum, allt upp í 26% og jafnvel 30%. Það er ekki síst þess vegna sem ég hef lagt mikla áherslu á að þetta verði klárað hið fyrsta og hef átt í samræðum við forsætisráðherra (Forseti hringir.) um það eins og ég sagði hv. þingmanni.