135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

framkvæmd vaxtarsamnings Eyjafjarðar.

398. mál
[15:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til iðnaðarráðherra um framkvæmd eða breytta framkvæmd vaxtarsamnings Eyjafjarðar.

Það var svo að sá samningur var framlengdur í nágrenni við áramótin og þá voru gerðar nokkrar breytingar á tilhögun hans eða framkvæmd sem mér finnst ástæða til að hæstv. ráðherra fái tækifæri til að rökstyðja. Ég tek það skýrt fram að í þessari fyrirspurn er ekki sjálfkrafa falin einhver gagnrýni eða áfellisdómur á þessar breytingar í sjálfu sér en ég hef orðið þess var á starfssvæði samningsins að þar hafa vaknað spurningar og þátttakendur í verkefninu á hinu fyrra formi hafa spurt hverju þessar breytingar sæti eða hver séu rökin að baki þeim. Þá á ég einkum við þá aðila sem höfðu tekið þátt í samstarfinu og framkvæmd samningsins á hinum fyrra grunni í formi þess að byggja upp svokallaða klasa, og ýmsa aðila, bæði úr skólasamfélaginu og frá fyrirtækjum og samtökum og jafnvel áhugamenn sem höfðu lagt þó nokkra vinnu, sjálfboðavinnu af mörkum í því skyni. Um þetta fyrirkomulag ríkti að ég best taldi almenn ánægja og aðilar sem svona háttar til um hafa þess vegna spurt sig hverjar séu helstu ástæður þess að farið var út í þessa breytingu, að hverfa frá klasaskilgreiningum og fela einum aðila framkvæmd samningsins.

Nú tek ég það fram að Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar er að sjálfsögðu mjög eðlilegur aðili til þess að halda utan um framkvæmd svona samnings og það er síður en svo að ég sé að gagnrýna það að samningurinn eða samningsutanumhaldið sé þar, en hinu leyni ég ekki að ég upplifi þetta þannig að það sé nokkur eftirsjá að því góða starfi og þeim jákvæða áhuga sem ýmsir aðilar sýndu og lögðu af mörkum í gegnum þátttöku sína í að byggja upp samstarfið innan viðkomandi klasa. Þannig veit ég fyrir víst að menn töldu að samstarf í mennta- og rannsóknarklasa, svo dæmi sé tekið, matvælaklasa og ferðaþjónustuklasa og örugglega einnig heilbrigðisklasa, hafi skilað góðum árangri. Ég sé því ástæðu til þess að fara fram á að hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra rökstyðji eða útskýri betur hvaða hugmyndir liggja að baki þessum breytingum.