135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

framkvæmd vaxtarsamnings Eyjafjarðar.

398. mál
[15:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herrar forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þau skýra þetta mál talsvert. Vaxtarsamningar eru kannski í grunninn fyrst og fremst nýtt nafn á fyrirbæri sem menn kölluðu öðrum nöfnum hér áður eins og byggðaáætlanir eða þróunaráætlanir og það er allt gott um það að segja. Að sjálfsögðu þarf að þróa slíka aðferðafræði og er allt í lagi að hún skipti um nafn svona af og til, aðalatriðið er náttúrlega að það sé eitthvert kjöt á beinunum. Það sem ég hef aðallega gagnrýnt er að menn slái um sig með nýjum og fínum nöfnum en svo er kannski lítið meira að gerast.

Ég tek þó undir það að vaxtarsamningur Eyjafjarðar hefur að mörgu leyti verið vel heppnaður svo að ég tali nú ekki um starf Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar frá öndverðu, allt frá því að það var eitt af fyrstu félögum sinnar tegundar í landinu og vann þrekvirki strax á fyrstu árum sínum undir forustu t.d. Finnboga Jónssonar þegar það leiddi til þess að fyrirtæki eins og Sæplast hóf starfsemi norðan heiða og þar fram eftir götunum. Það hefur unnið hið merkasta starf allan tímann síðan. Mér hefur að vísu fundist það vera fullupptekið af stóriðjudraumum á köflum en það hefur mjög margt gott gert og ég treysti því vel til að halda utan um samninginn og hafa með samningshaldið að gera.

Það er engu að síður mikilvægt að varðveita þá jákvæðu þátttöku og það góða andrúmsloft sem hafði skapast meðal áhugasamra aðila, forsvarsmanna úr atvinnulífi og skólasamfélaginu fyrir norðan innan viðkomandi greina og það er mikilvægt að það takist þrátt fyrir þessa breyttu framkvæmd samningsins og ég skil ráðherra þannig að það eigi að vera mögulegt.

Þá er að endingu ekki nema eitt í viðbót sem ég bið um og það er að það þarf greinilega að kynna betur í nærsamfélaginu þessar breytingar og hvernig þær eru hugsaðar og alveg sérstaklega að menn ætli að leyfa því starfi að flæða áfram sem áður fór fram og var byggt upp á grundvelli klasaskilgreiningarinnar.