135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

öryrkjar í háskólanámi.

400. mál
[15:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Árnadóttur fyrir þessa umhugsunarverðu fyrirspurn sem dregur fram nokkuð athyglisverðar upplýsingar og vekur okkur til umhugsunar um að allir njóti jafnra tækifæra til náms. Sem betur fer hefur okkur auðnast, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, að fjölga nemendum á öllum skólastigum. Ég held það sé mjög brýnt, og við ræddum það aðeins í gær, að við höldum áfram að reyna að laða fólk að inn í skólakerfið, sérstaklega á framhalds- og háskólastigi.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hversu margir nemendur í Háskóla Íslands njóti afsláttar af skrásetningargjöldum sem ætlaður er öryrkjum vil ég geta þess að Háskóli Íslands annast innheimtu gjaldsins og ráðstöfun þess í samræmi við lög sem um hann gilda. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum eru öryrkjar ekki auðkenndir við skráningu. Þegar háskólaráð samþykkti að lækka skrásetningargjald fyrir öryrkja miðað við 75% örorkumat var leitað eftir áliti Persónuverndar um að sérmerkja þá sem fengju afslátt af skrásetningargjöldum en Persónuvernd heimilaði ekki slíkt utanumhald. Af þeim sökum liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu margir öryrkjar sem njóta afsláttar af skráningargjöldum stunda nú nám í Háskóla Íslands.

Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um nemendur sem njóta sérúrræða hjá skólanum. Háskólaárið 2006–2007 nutu 394 nemendur úrræða í námi og/eða við próftöku. Af þeim 394 stúdentum voru um 70% stúlkur og um 30% piltar. Nemendum sem njóta sértækra úrræða vegna fötlunar eða hömlunar í Háskóla Íslands hefur fjölgað stigvaxandi frá árinu 1995. Þá voru þeir 60 en eru í dag, eins og áður sagði, um 390 og helst það í hendur við hlutfallslega fjölgun nemenda á háskólastigi.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Háskóla Íslands munu einhverjir nemendur njóta lægra skrásetningargjalds, þeir sem búa við 75% örorku eða hærri. Þar á meðal eru fimm bundnir í hjólastól, tveir eru lögblindir og sex eru mikið heyrnarskertir. Það sama á við um aðra háskóla, slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir þar frekar en í Háskóla Íslands út af tilmælum frá Persónuvernd.

Ráðuneytið hefur ekki gefið út sérstaka aðgerðaáætlun um hvernig fjölga megi öryrkjum í háskólanámi. Ég tel hins vegar rétt að benda á að um starfrækslu háskóla gilda bæði almenn lög, rammalöggjöf, og sérlög um opinbera háskóla. Að auki eru háskólarnir háðir sérlögum, þar á meðal um málefni fatlaðra. Til þessa hefur verið litið svo á að skólarnir hafi ákveðið sjálfstæði og beri jafnframt ábyrgð samkvæmt því. Eins og ég m.a. undirstrikaði í umræðum á þingi í gær hefur það verið haft að leiðarljósi hjá okkur að efla og auka sjálfstæði háskóla á öllum sviðum enn frekar.

Gildandi löggjöf um háskóla gerir ekki sérstakan greinarmun á nemendum eftir heilbrigði og þar á meðal hvort nemandi teljist öryrki. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir sérstök aðgerðaáætlun stjórnvalda um að fjölga öryrkjum í háskólanámi hafa flestir háskólanna til taks sértæk úrræði fyrir fatlaða eða öryrkja sem stunda nám hjá þeim hverju sinni. Í því sambandi hafa háskólar brugðist við og markað sér stefnu, sem ég tel heppilega leið, í þessum málum, sem verður að telja afar mikilvægt. Má þar m.a. vísa til stefnu Háskóla Íslands í málefnum fatlaðra, enn fremur stefnu skólans gegn mismunun, sem m.a. varðar málefni fatlaðra, og stefnu Háskólans á Akureyri, um jafnt aðgengi að námi og störfum við skólann, þar sem m.a. er lýst málefnum nemenda með sérþarfir í námi vegna skerðingar, veikinda eða sértækra námsörðugleika.

Ég vil að lokum, herra forseti, upplýsa fyrirspyrjanda um að árið 2007 var sett upp sérstök námsleið í Kennaraháskólanum sem ætluð er fólki með þroskahömlun sem hefur lokið sértækum starfsbrautum í framhaldsskóla. Þessi námsleið er, eins og mér hefur verið greint frá, einstök í sinni röð og er litið sérstaklega til okkar Íslendinga sem fyrirmyndar í þeim efnum.