135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

loðnubrestur og mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[10:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að geta átt orðastað við hæstv. forsætisráðherra um stöðuna í efnahags- og atvinnumálum og þar á meðal síðustu ótíðindin sem tengjast loðnubrestinum og mögulegum mótvægisaðgerðum bæði af þeim sökum og aðstæðum sem áður lágu fyrir. Auðvitað væri einnig ástæða til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um ástandið í fjármálaheiminum, stöðu bankanna, skuldatryggingaálag og allt það. Það gefst auðvitað ekki tími til að tæma slíkt í tveggja mínútna ræðum enda liggur inni beiðni frá mér um ítarlega utandagskrárumræðu um þessi mál í heild sinni þar sem hægt verði með sæmilega rúmum ræðutíma að ræða um hina almennu stöðu í efnahags-, atvinnu- og byggðamálum, enda ekki vanþörf á. Við þingmenn höfum verið að ræða þetta á undanförnum dögum og vikum í mismunandi bútum og pörtum og það er allt góðra gjalda vert. En ég held að það sé tími kominn á að Alþingi taki sér eins og einn dag í að fara mjög rækilega yfir stöðuna og hafa þar allt undir, stöðuna í fjármálaheiminum, atvinnuástandið og uppsagnir, ekki síst í fiskvinnslu á landsbyggðinni. Nú er einnig ástæða til að ræða hluti sem tengjast loðnubresti ofan í þorskaflabrest og svo gríðarlegu tekjufalli sem verður í sjávarbyggðunum af þeim sökum.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra nú hvort ríkisstjórnin hafi endurskoðað áform sín eða vinnuáætlun sína hvað varðar endurskoðun á mótvægisaðgerðum sérstaklega og hvernig þeirri vinnu verði þá hagað á næstu dögum og vikum. Stendur til í ljósi alvarleika mála að efna til einhvers þverpólitísks samstarfs um þessa hluti? Hvað er af þessu máli að frétta að svo stöddu á ríkisstjórnarheimilinu? Ágætt er að fá um það upplýsingar áður en hæstv. forsætisráðherra bregður sér af bæ.