135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

loðnubrestur og mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[10:35]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Okkur hafa borist mikil ótíðindi varðandi loðnuveiðarnar en ég hygg að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi tekið þá einu ákvörðun sem hægt var að taka í þessari stöðu á grundvelli tillagna Hafrannsóknastofnunar. Öll hljótum við að sjálfsögðu að vona að loðnuveiðum sé ekki endanlega lokið á þessari vertíð og að loðnan muni skila sér innan tíðar þótt hún sé lítt finnanleg um þessar mundir. Þannig er það með þennan dyntótta fisk að ástand sem þetta hefur komið upp þótt svo veiðar hafi getað farið af stað síðar.

Aðalatriðið er, eins og margir hafa vakið athygli á, að vakta miðin og fylgjast nákvæmlega með því hvort loðnan fari að gefa sig og það verður að sjálfsögðu gert. Ef þetta verður að veruleika og ekki veiðist meiri loðna á þessari vertíð er alveg ljóst að það eru gerbreyttar aðstæður víða í landinu á þeim stöðum sem hafa reitt sig öðrum stöðum fremur á loðnuveiðarnar og vertíðina í kringum þær og þá þurfum við auðvitað að huga að því ástandi sérstaklega.

Hvað varðar hinar almennu mótvægisaðgerðir sem ákveðnar voru með tilliti til þorskaflaskerðingarinnar á síðasta ári þá eru þær, eins og ég hef áður sagt í þessum ræðustól, nú fyrst á þessu ári að koma til framkvæmda í einhverjum mæli. Við höfum það mál til stöðugrar endurskoðunar og það er alveg ljóst að ef þetta þunga högg vegna loðnuveiðibannsins verður að veruleika þurfum við að taka það alveg sérstaklega með inn í myndina. Það er ekki komin nein ný niðurstaða í þessu máli en þingið mun að sjálfsögðu verða upplýst eftir því sem fram vindur.