135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

loðnubrestur og mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[10:39]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendingar hans í þessum efnum og ég veit að þær eru settar fram af góðum hug og vilja til þess að leggja sitt af mörkum til að leysa vandamál sem upp er komið. Við munum væntanlega síðar geta rætt þetta mál ítarlegar en hér gefst tóm til. Við tökum þetta að sjálfsögðu öll mjög alvarlega, stöðuna sem upp er komin varðandi loðnuveiðarnar. Hún bætist við þriðjungsskerðingu á þorskaflamarkinu sem útgerðirnar í landinu hafa glímt við að aðlaga sig að.

Öll þau atriði sem hv. þingmaður nefndi eru að sjálfsögðu til athugunar og umræðu. Ég hygg að ríkisstjórnin muni ekki hafa á móti því að taka við góðum hugmyndum hvaðan svo sem þær koma þótt ekkert formlegt samráð hafi verið ákveðið við stjórnarandstöðuna í þessu máli, í það minnsta ekki enn sem komið er.