135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

stöðvun loðnuveiða og hafrannsóknir.

[10:46]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er afar mikilvægt að það sé gagnkvæm tiltrú á milli þeirra sem stunda veiðarnar og þeirra vísindamanna sem fylgjast með loðnustofninum, eins og öðrum nytjastofnum við landið. Ég á von á því að samstarfshópur sem er til staðar, formlegur samstarfshópur þar sem í eiga sæti sjómenn og útvegsmenn og vísindamenn, komi saman til að fara yfir þessi mál, hvernig við munum haga eftirlitinu á næstu sólarhringum því hver sólarhringur í þessum efnum á þessum tímapunkti skiptir gríðarlega miklu máli.

Við tökum eftir því að sjómenn okkar og útvegsmenn hafa háttað veiði sinni þannig að þeir hafa reynt að halda aftur af sér með veiðina til þess að geta tryggt það að fá sem mest út úr verðmætunum og það er auðvitað það sem miklu máli skiptir. Það er auðvitað ævintýralegt hvað mönnum hefur tekist vel til í þeim efnum og ég get alveg tekið undir það sem hér hefur verið sagt að ef svo lukkulega vill til að við finnum nægilegt magn til að gefa út kvóta þá er ég sannfærður um að menn munu (Forseti hringir.) fyrst og fremst nýta hann til skapa aukin verðmæti og þar með atvinnusköpun í landinu.