135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

efnahagsmál.

[10:47]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er nú gott að hæstv. forsætisráðherra getur enn sungið þrátt fyrir erfiðleika og höfuðverk efnahagslífsins. Ég vildi sannarlega að hann gæti sungið erfiðleikana í burtu með sinni fallegu rödd.

Já, loðnan er horfin og milljarðatap blasir við fyrirtækjum í veiðum og vinnslu. Olían hækkar á heimsmarkaði og er dýrari en nokkru sinni fyrr, allt frá því 1861. Það eru miklar viðsjár sem blasa við. Íslenska útrásin og athafnamenn Íslands eiga erfitt en ekki síst bankar og fjármálafyrirtæki eins og við höfum svo oft rætt um.

Þar eru auðvitað verst sjálfskaparvítin, offar og ofurlaun, lúxus og bruðl sem hefur einkennt töluvert síðustu árin. Þá er samúð almennings oft fjarri þegar erfiðleikar blasa við. 300 milljónir í starfslok og 300 milljónir við upphaf starfs er auðvitað dæmi um glerhús fáránleikans á litla Íslandi. Ég fagna því ef bankakerfið er að átta sig á því að svona launataka gengur ekki upp hér.

Ég ræddi í síðustu viku við hæstv. forsætisráðherra um aðgerðir til að kynna sterkt þjóðarbú Íslands, skuldlausan ríkissjóð, sterkt lífeyrissjóðakerfi og í rauninni sterka eignastöðu bankanna til þess að snúa umræðunni við á erlendum vettvangi. Hæstv. forsætisráðherra ræddi þessi mál á viðskiptaþingi og boðaði daginn eftir forsvarsmenn bankanna og fjármálamenn á sinn fund.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað sé fram undan í þeim efnum. Hefur einhver ákvörðun verið tekin um að fara í þann leiðangur að berjast fyrir hagsmunum Íslands og ná betri kjörum hvað fjármagn varðar? Hvert verður hlutverk Seðlabankans í þeirri för? (Forseti hringir.) og hver stýrir henni af hálfu Íslands þegar ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun í þessum efnum?