135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

efnahagsmál.

[10:49]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það hefur að sjálfsögðu verið tekin ákvörðun um að berjast fyrir hagsmunum Íslands. Það er það sem við erum að gera á hverjum degi í störfum okkar. En hv. þingmaður gat réttilega um ummæli mín á viðskiptaþingi. Hann hafði vikið að svipaðri hugmynd hér í þinginu og það hefur reyndar áður verið gert og áður hafa aðilar staðið saman um að kynna stöðu lands og þjóðar í efnahagsmálum út á við.

Á fundinum sem ég átti með bankamönnum daginn eftir viðskiptaþing fórum við rækilega yfir þetta ásamt þremur öðrum ráðherrum og mér óhætt að segja að þar er ríkur áhugi og það kom fram skilningur á því að nauðsynlegt væri að aðilar sneru bökum saman. Hugmyndin með þeim fundi var að sjálfsögðu ekki síst sú að sýna ákveðna samstöðu í þessu máli.

Ég hef síðan fengið til liðs við mig ágætan bankamann til að leggja hönd á plóginn í þessu máli sem er á fullri ferð í vinnslu. En hvað líður þátttöku eða aðild einstakra stofnana er of snemmt að segja til um.

En ég get fullvissað þingmanninn um það að við munum ekki láta neitt tækifæri fram hjá okkur fara til þess að leiðrétta rangfærslur, koma réttum upplýsingum á framfæri um stöðu mála hér sem er mjög góð í öllum grundvallaratriðum, eins og þingmaðurinn sagði. En auðvitað getum við ekki gert að því þótt olíuverð sé hærra núna en það hefur verið frá 1861 eða að ýmis önnur ytri áföll dynji á þjóðarbúi okkar eins og öðrum. Við þurfum auðvitað að laga okkur að slíkum staðreyndum sem koma erlendis frá. En í grunninn er þjóðarbúskapurinn hér mjög góður og við þurfum að koma því á framfæri.