135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

efnahagsmál.

[10:51]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og fagna því ef hann er að átta sig á því að ríkisstjórnin getur ekki verið stikkfrí við þessar aðstæður. Hún verður að gegna mikilvægu hlutverki þegar kreppir að. Það reynir á ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra þegar slíkar aðstæður eru. Hæstv. ríkisstjórnin hefur ekki farið varlega frá því að hún tók til starfa og í rauninni barið hausnum við steininn að mínu viti. Það sést á fjárlögunum og það sést á allri umræðu um vexti og okurvexti að viðbrögðin hafa verið fá og lítil.

Ég spurði hæstv. forsætisráðherra um Seðlabanka Íslands hvort hann gegndi hlutverki við þessar aðstæður. Hann svaraði því ekki. Ég vil spyrja um það aftur.

Svo verð ég auðvitað að skýra frá því hér að við framsóknarmenn höfum frá upphafi haft miklar áhyggjur af efnahagsástandinu og höfum það enn. Nú hef ég fyrir hönd þingflokksins (Forseti hringir.) skrifað Seðlabankanum bréf til þess að leita upplýsinga. Við eigum ekki annan kost en að leita til Seðlabankans. Þjóðhagsstofnun (Forseti hringir.) var lögð niður. Við skrifum því bréf og leitum álits Seðlabankans á stöðu þjóðarbúsins á mörgum sviðum. Ég mun skýra frá því hér á eftir, hæstv. forseti.