135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

efnahagsmál.

[10:53]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég fagna því að Framsóknarflokkurinn skuli leita sér upplýsinga um stöðu mála og hann skuli skrifa Seðlabankanum bréf í því skyni. Það er bara fínt. Ekki dugar að lemja höfðinu við steininn eða líkamanum öllum við klettinn eins og stundum hefur nú verið gert í Framsóknarflokknum.

Um hlutverk einstakra stofnana í kynningarátaki er auðvitað allt of snemmt að segja. En vissulega er Seðlabankinn lykilstofnun hvað þetta varðar. Seðlabankinn er í samskiptum við alþjóðlegar fjármálastofnanir á degi hverjum og hefur þar mikil sambönd og tengsl. Það er allt saman rétt. En hitt er annað mál að ríkisstjórnin hefur ekki setið aðgerðarlaus í þessum málum og hyggst ekki gera. En það skiptir máli að gera réttu hlutina. Það er ekki nóg að gera bara eitthvað eins og virðist vera rík tilhneiging hjá tilteknum aðilum.