135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

hækkun á bensíni og dísilolíu.

[10:54]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það sækir vissulega að okkur ýmiss konar óáran á þessum dögum. En það sem mig langar að gera að umræðuefni hér er hækkun bensínverðs og dísilolíu.

Auðvitað ráðum við ekki heimsmarkaðsverði en hinu er ekki að leyna að ríkið tekur til sín, samkvæmt útreikningum FÍB, um 50% af útsöluverði bensíns og olíu. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé og að hæstv. forsætisráðherra leitist við að svara því hvernig ríkisstjórnin hyggist taka á þeim vaxandi kostnaði sem lendir á neytendum á Íslandi með hækkandi bensín- og olíuverði og hvort ekki sé ástæða til þess að ríkið endurskoði þá samanlögðu álagningu sem ríkissjóður tekur af þessum vörum með tilliti til þess hvers konar verðþróun hefur orðið á undanförnum missirum.

Samkvæmt fjárlögunum tökum við sennilega rúma 15 milljarða í tekjur í gegnum vörugjald af bensíni, sérstakt vörugjald og olíugjald. Og ef að líkum lætur, miðað við breytingu á verði á þessum vörum frá síðasta ári til þess sem er í dag þegar lítrinn er um 140 kr. hvort sem við lítum til bensínsins eða olíunnar, hugsa ég að ríkissjóður fái auknar tekjur upp á rúman 1 milljarð miðað við óbreytt ástand á þessu ári frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum, þ.e. hærri tekjur.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig hann hyggist bregðast við og hvort það standi til að lækka þessar samanlögðu álögur á bensín og olíu.