135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum.

[11:01]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra um framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi og framtíð garðyrkjumenntunar í landinu.

Um áramótin 2004–2005 var Garðyrkjuskólinn á Reykjum sameinaður Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Síðan hefur ríkt veruleg óvissa um garðyrkjumenntun og veruleg óvissa um það hvort Garðyrkjuskólinn verði áfram staðsettur á Reykjum. Þar hefur skólinn verið starfræktur með miklum sóma frá árinu 1939 og verið ómetanlegur fyrir íslenska garðyrkju og mikilsverður og órjúfanlegur þáttur í menntunar- og atvinnusögu Hveragerðis og nágrennis og reyndar landsins alls. Það má fullyrða að þessi skóli hafi átt drýgstan þátt í því að á Suðurlandi stendur garðyrkja með mestum blóma og lífræn ræktun, öflugasti vaxtarbroddur landbúnaðar í heiminum, í fararbroddi þar.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum og garðyrkjumenntun hefur verið í dauðans óvissu sl. fjögur ár. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Skólahald á Reykjum er að komast í uppnám, það gengur illa að ráða og halda í starfsfólk og jafnvel lítill áhugi á því. Sérfræðingar skólans hafa leitað á önnur mið og kraftur við uppbyggingu og áhugi á garðyrkjunámi hefur farið mjög dvínandi og þannig mætti lengi telja. Þessu hefur stjórn Sambands garðyrkjubænda mótmælt harðlega og lýst uggvænlegri þróun og áhyggjum sínum. Sama er að segja um Græna geirann, heildarsamtök þeirra sem starfa við garðyrkju og Félag skrúðgarðyrkjumeistara og Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra.

Herra forseti. Ég spyr og óska eftir afdráttarlausu svari hæstv. menntamálaráðherra: Verður Garðyrkjuskólinn á Reykjum áfram staðsettur þar og hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að efla garðyrkjumenntun í landinu?