135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[11:08]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Íslenska fæðingar- og foreldraorlofslöggjöfin hefur oft og tíðum hlotið lof og hafa ráðamenn annarra ríkja sýnt henni mikinn áhuga. Í þessu sambandi má nefna að félags- og tryggingamálaráðuneytið mun að beiðni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins standa fyrir sérfræðingafundum með fulltrúum 15 aðildarríkja sambandsins síðar á þessu ári þar sem m.a. verður fjallað um íslenska fæðingarorlofslöggjöf og þátttöku íslenskra feðra í fæðingarorlofi. Fæðingarorlofslöggjöfin er þó ekki frábrugðin annarri löggjöf hvað það varðar að alltaf má gera betur. Í því skyni að fara yfir framkvæmd laganna um fæðingar- og foreldraorlof var í janúar 2007 settur á fót vinnuhópur í félagsmálaráðuneytinu með aðkomu fulltrúa frá ráðuneytinu, Fæðingarorlofssjóði og Jafnréttisstofu. Hópurinn skilaði skýrslu í október sl. og í kjölfarið var settur á fót annar hópur með aðkomu fulltrúa stjórnarflokkanna ásamt fulltrúum ráðuneytisins í því skyni að fara yfir og meta þær tillögur sem fyrri vinnuhópurinn lagði fram í skýrslu sinni.

Við smíði frumvarpsins var m.a. höfð hliðsjón af þeirri reynslu sem komið hefur fram og orðið hefur af framkvæmd laganna og ábendingum sem hafa borist ráðuneytinu um atriði sem betur mega fara þegar kemur að rétti einstaklinga til fæðingar- og foreldraorlofs. Í frumvarpinu er ekki að finna tillögur er varða lengingu fæðingarorlofs en lengra fæðingarorlof hefur þó verið mikið í umræðunni að undanförnu. Meðal annars er kveðið á um það í stjórnarsáttmálanum og í þingsályktunartillögum um aðgerðaráætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem Alþingi samþykkti sl. sumar að fæðingarorlof skuli lengt í áföngum.

Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar með þingsályktunartillögunni var því sérstaklega fagnað að fæðingarorlofið verði lengt á yfirstandandi kjörtímabili og lögð áhersla á að við þær aðgerðir verði ekki dregið úr réttindum hvors foreldris fyrir sig. Ég tek undir þessi sjónarmið en engin ákvörðun liggur fyrir enn um það hvenær ráðist verður í lengingu á fæðingarorlofi.

Meðal þess sem lagt er til í því frumvarpi sem ég nú mæli fyrir eru breytingar á svokölluðu viðmiðunartímabili en með því er átt við það tekjutímabil foreldra sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði taka mið af. Samkvæmt gildandi lögum er viðmiðunartímabilið tvö tekjuár næst á undan fæðingarári barns eða því ári sem barn kemur inn á heimilið vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum, nr. 90/2004, um breytingar á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, að ástæða þess að lagt væri til að viðmiðunartímabilið yrði með þessum hætti væri m.a. að borið hefði á því að foreldrar hefðu reynt að hafa áhrif á laun sín á viðmiðunartímabilinu í því skyni að hækka greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði við töku fæðingarorlofs. Þetta viðmiðunartímabil hefur samt sem áður sætt mjög mikilli gagnrýni og held ég að ég hafi ekki fengið fleiri skilaboð og tölvupósta en varðandi þetta viðmiðunartímabil sem legið hefur undir mikilli gagnrýni. Það hefur verið gagnrýnt m.a. á þeim grundvelli að þetta geti leitt til ójafnræðis milli foreldra þar sem viðmiðunartímabil foreldra vegna barna sem fæðast á síðustu mánuðum ársins er þá lengri í tíma en viðmiðunartímabil foreldra vegna barna sem fæðast á fyrstu mánuðum og geti þar munað allt að einu ári milli foreldra. Þótt viðmiðunartímabilið sjálft sé alltaf tvö tekjuár getur þetta samt sem áður komið illa við suma foreldra, sérstaklega ungt fólk sem nýlega fyrir fæðingardag barns hefur hafið þátttöku á vinnumarkaði. Þannig getur það tímabil sem lagt er til grundvallar í fæðingarorlofsgreiðslum verið á bilinu tvö til þrjú ár aftur í tímann frá fæðingardegi barns sem aftur getur leitt til þess að foreldrar tapi háum fjárhæðum á mánuði ef barn þeirra fæðist ekki réttu megin við áramót ef svo má að orði komast. Brýnt er því orðið að leiðrétta það mikla misrétti og ójafnræði sem getur leitt af gildandi lögum í þessu efni.

Því er lagt til að þessu viðmiðunartímabili verði breytt þannig að miðað verði við meðalheildarlaun foreldra sem teljast starfsmenn í skilningi laganna yfir 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur 6 mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimilið við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Þó er gert ráð fyrir að viðmiðunartímabil vegna foreldra sem teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna verði tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári sem barn kemur inn á heimilið vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Ástæða þess er einkum sú að nokkur eðlismunur er talinn vera á starfstengdum aðstæðum launafólks annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklinga hins vegar en sjálfstætt starfandi einstaklingar kunna að hafa meiri áhrif á tekjur sínar en launafólk. Þykir því mikilvægt að miða við sama tímabil og skattyfirvöld gera að því er sjálfstætt starfandi einstaklinga varðar með það fyrir augum að unnt sé að samkeyra kerfin þegar álagning skattyfirvalda liggur fyrir.

Í þeim tilgangi að jafna stöðu foreldra burt séð frá því hvenær ársins barn fæðist um leið og áfram er reynt að koma í veg fyrir að foreldrar geti haft áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með því að hagræða tekjum sínum á viðmiðunartímabili eru því lagðar til fyrrnefndar breytingar á viðmiðunartímabilinu. Áfram er gert ráð fyrir að foreldrar hafi verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu og skuli miða við meðalheildarlaun þess fyrir það tímabil sem það telst hafa verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna.

Í frumvarpinu er lagt til að þar á meðal teljist tilteknar tímabundnar aðstæður sem hafa þótt jafnast á við þátttöku á vinnumarkaði svo sem þegar foreldri er í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti. Enn fremur ef foreldri er í fæðingarorlofi, þegar það er tímabundið án atvinnu og hefur sótt um greiðslur innan atvinnuleysistryggingakerfisins eða er óvinnufært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss. Lagt er til að miðað verði við heildarlaun foreldra á viðmiðunartímabili eins og verið hefur en jafnframt verði taldar með þær greiðslur er koma til vegna fyrrgreindra aðstæðna auk hvers konar launa og annarra þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Þá er í frumvarpinu lagt til að heimild til yfirfærslu réttinda til fæðingarorlofs verði rýmkuð milli foreldra þannig að hún nái ekki eingöngu til tilvika þegar annað foreldrið andast heldur einnig til tilvika þegar annað foreldrið er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 18 mánuðum eftir fæðingu þess. Lagt er til að hið sama gildi þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu 18 mánuðum eftir að barn kemur inn á heimili í frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

Enn fremur er lagt til að það sama gildi varðandi yfirfærslu réttinda til fæðingarstyrks milli foreldra sem rétt eiga á slíkum styrk. Jafnframt er lagt til að báðir foreldrar geti hafið töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns en samkvæmt gildandi lögum er sá réttur einungis bundinn við móðurina.

Enn fremur er lagt til að forsjárlausir foreldrar öðlist rétt til fæðingarstyrks til samræmis við rétt forsjárlausra foreldra til fæðingarorlofs samkvæmt gildandi lögum enda liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir.

Þá er lagt til að greiðslur er varða rétt námsmanna til fæðingarstyrks sem eingöngu hefur verið kveðið á um í reglugerð fram til þessa verði færðar í lög. Er það nýmæli jafnframt lagt til í frumvarpinu að jafnræðis verði gætt milli námsmanna við íslenska skóla að því er varðar greiðslu fæðingarstyrks hvort sem þeir stunda hefðbundið nám við viðkomandi skóla eða eru í fjarnámi án tillits til búsetu. Er því lagt til að heimilt verði að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði laganna hafi námsmaður sem stundar fjarnám við íslenska skóla flutt lögheimili sitt tímabundið erlendis enda hafi hann átt lögheimili hér á landi í a.m.k. fimm ár á undan flutningi.

Jafnframt eru lagðar til þær breytingar að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi ekki áhrif á réttindi foreldra til lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í gildandi lögum samrýmast ekki örorkulífeyrisgreiðslur fæðingarorlofsgreiðslum og þarf öryrki nú að velja á milli fæðingarorlofsgreiðslna og örorkulífeyris. Með breytingunni er verið að gera öryrkja á vinnumarkaði eins setta og aðra á vinnumarkaði, þ.e. að þeir munu fá í fæðingarorlofi 80% af tekjum sínum á viðmiðunartímabilinu greiddar úr Fæðingarorlofssjóði en halda jafnframt lífeyrisgreiðslum sínum. Breytingin á ekki við um öryrkja utan vinnumarkaðar en þeir geta átt rétt á fæðingarstyrk eins og aðrir.

Samkvæmt gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof skulu skattyfirvöld annast eftirlit með framkvæmd laganna en félagsmálaráðherra er þó heimilt að ákveða annað fyrirkomulag. Með reglugerð nr. 826/2007, um breytingar á reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslur fæðingarstyrks, var eftirlitið með framkvæmd laganna fært frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar og hefur stofnunin látið hanna sérstakan hugbúnað sem ætlað er að efla eftirlit með því að foreldrar leggi sannanlega niður störf í fæðingarorlofi og að þeir hagnist ekki á greiðslum úr sjóðnum þannig að um viðbót sé að ræða við tekjur sem þeir fá á fæðingarorlofstímabili. Í frumvarpinu er því lagt til að ákvæðum laganna er snúa að eftirliti með framkvæmd laganna verði breytt til samræmis við ákvæði fyrrnefndrar reglugerðar auk þess sem lögð er áhersla á nána samvinnu milli Vinnumálastofnunar og skattyfirvalda í sambandi við framkvæmd eftirlitsins.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið í stuttu máli helstu breytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögum um fæðingar- og foreldraorlof að þessu sinni. Í því sambandi vil ég leggja áherslu á að verði frumvarpið að lögum er ekki gert ráð fyrir að auka þurfi fjármagn til Fæðingarorlofssjóðs. Tekjur sjóðsins í fjárlögum ársins 2008 eru áætlaðar 8,6 milljarðar og eru útgjöldin áætluð 8,3 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki þessa frumvarps sé 200–300 millj. kr. og miðað við núverandi innstreymi til sjóðsins geta því útgjöld hans hækkað um allt að 300 millj. kr. án þess að til breytinga þurfi að koma á prósentuhlutfalli sjóðsins af gjaldstofni tryggingagjaldsins.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félags- og trygginganefndar.