135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[11:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Frumvarp það sem við ræðum er veruleg réttarbót og ég fagna því að hæstv. félagsmálaráðherra skuli hafa náð fram í ríkisstjórninni þessari stefnumarkandi niðurstöðu sem við sjáum hér á þingskjali 631. Þar er fyrst og fremst viðmiðunartímabilið sem skiptir verulegu máli og skiptir svo marga máli, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Hún sagði að út af málum þessu tengt hafi verið sennilega flest tölvuskeytin og flest símtölin til hennar eftir að hún tók við ráðherraembætti. Ég dreg það ekki í efa því að við almennir þingmenn höfum sennilega öll fengið upphringingar og tölvupósta sem varða þetta réttindamál. Hér eru einnig verulegar réttarbætur fyrir námsmenn, fjarnámsnemana sérstaklega og einnig fyrir öryrkja og þessum bragarbótum á annars framsæknum lögum um fæðingarorlof vil ég leyfa mér að fagna.

Mig langar þó til að spyrja um örfá atriði, hæstv. forseti. Í fyrsta lagi langar mig til að spyrja um lögheimilisskilyrðin. Nú er það svo að ungir námsmenn sem flytja til útlanda, færa lögheimili sitt til þess lands sem þeir stunda nám í, geta lent í vandræðum sem eru eftirfarandi: Ung hjón flytja af landi brott, ætla sér bæði í nám í Danmörku, þurfa að flytja lögheimili sitt, en það kemur í ljós að námið sem verðandi móður stendur til boða hentar henni ekki og hún ákveður að stunda áfram nám sem hún hvarf frá hér á Íslandi. En þar sem hún hefur fengið lögheimili í útlöndum í ljósi þess að maðurinn hennar er við nám þar þá fellur niður réttur hennar til fæðingarstyrks. Ég held að ég muni það rétt að þetta sé 19. gr. í lögunum sem þyrfti að breytast varðandi þetta en ég tel að hér sé um ákveðinn lapsus að ræða sem mætti skoða við meðferð frumvarpsins í nefnd.

Nú vill svo til að ég hef gleymt á borðinu mínu frumvarpi til laga sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram til breytinga á nákvæmlega þessu atriði. En ég held að ég muni þetta nokkurn veginn rétt að það sé 19. gr. og þetta eru sem sagt lögheimilisskyldurnar sem geta orðið ungum námsmönnum fjötur um fót ef barn fæðist í útlöndum og viðkomandi eru komin með lögheimili í útlöndum en stunda engu að síður, þ.e. annað hvort foreldrið, nám á Íslandi.

Síðan langar mig til að spyrja aðeins um ákvæðin um forsjárlausu foreldrin. Það er alveg ljóst að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að forsjárlausir foreldrar öðlist rétt til fæðingarstyrks enda liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrksins stendur yfir. Ég fagna þessu ákvæði, það skiptir verulegu máli að við tryggjum rétt forsjárlausra foreldra og það sýnist mér vera gert vel með þessu ákvæði í frumvarpinu. En nú langar mig til að spyrja um þau tilfelli þegar hið forsjárlausa foreldri ætlar sér ekki og vill ekki taka þátt í umönnun eða uppeldi barnsins. Nú á það sér stað — við verðum að horfast í augu við veruleikann hvað þetta varðar — að það kemur fyrir að forsjárlaust foreldri kýs ekki að nýta sér þennan rétt sinn. Þó svo að barnið eigi rétt á umgengni við báða foreldra kunna að koma upp þau tilfelli að viðkomandi foreldri kýs ekki að nýta sér þann rétt. Hver er þá réttur hins foreldrisins sem hefur forsjána? Getum við opnað fyrir möguleikann á því að viðkomandi geti þá fengið — þó að ekki sé um að ræða veikindi eða slys eða refsivist eða neitt slíkt — að hann geti fengið yfirfærðan rétt hins forsjárlausa foreldris sem ekki kýs að nýta hann? Auðvitað er þetta álitamál en ég tel að það þurfi að ræða þetta í meðförum nefndarinnar.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki annað en hér séu verulegar bætur gerðar á annars góðum lögum og því ber að fagna að ríkisstjórnin skuli hafa samþykkt að auka útgjöld ríkissjóðs á komandi árum um 200–300 milljónir í þágu þessara brýnu málefna því að auðvitað áttum við okkur á því öll sem hér í þessum sal sitjum að það skiptir verulegu máli að við tökum sameiginlega á þeirri ábyrgð að koma ungum börnum til manns og þá eru fyrstu 18 mánuðir í lífi hvers barns þeir allra mikilvægustu. Við höfum áttað okkur á því. Í auknum mæli sýna rannsóknir það þannig að ég, eins og ég segi, tel að hér sé um mjög góðar breytingar að ræða og mikla bragarbót.