135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[11:29]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95 frá árinu 2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Hér er ekki um að ræða stórar efnislegar breytingar á lögunum eða þeirri hugmyndafræði sem að baki þeim liggur heldur er frekar um að ræða ýmsar lagfæringar á atriðum er varða framkvæmd laganna og fagna ég þeim tillögum sem hér eru lagðar fram. Það er eðlilegt að farið sé reglulega yfir framkvæmdina á lögunum og sniðnir af þeim þeir agnúar sem í ljós hafa komið og ekki hefur verið hægt að sjá fyrir.

Þessi ágætu lög sem ég þreytist ekki á að mæra eru orðin u.þ.b. átta ára gömul. Þau voru afskaplega mikið framfaramál á sínum tíma. Ég leyfi mér enn einu sinni að fullyrða að þetta sé eitt mikilvægasta fjölskyldu- og jafnréttismálið sem sett hefur verið fram fyrr og síðar og tek þar ansi stórt upp í mig. Um það hefur alla tíð verið mikil sátt á milli allra stjórnmálaflokka hér á Alþingi og var málið á sínum tíma unnið í mjög góðu samstarfi aðila í stjórnkerfinu, stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins. Markmið laganna var að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður og því var líka ætlað að gera körlum jafnt sem konum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf þannig að þetta er, eins og ég sagði áðan, bæði fjölskyldu- og jafnréttismál.

Eins og ég sagði tel ég þær breytingar sem hér eru lagðar til allar vera til bóta. Ég ætla ekki að rekja þær ítarlega hér enda hefur hæstv. félagsmálaráðherra gert grein fyrir þeim og þær munu síðan verða til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd. Ég vil nefna sérstaklega breytingarnar á viðmiðunartímabilinu sem, eins og komið hefur fram, hefur skapað ákveðna óánægju þar sem þarna hefur sannarlega verið um misræmi að ræða á milli foreldra sem eignast hafa börn sín á mismunandi tímum ársins og ég tel því mikið sanngirnismál að það verði lagfært.

Ég er líka ánægð með að ákveðin íhaldssemi verði áfram hvað varðar framsal réttinda á milli foreldra. Þó að ég hafi ákveðna samúð með sjónarmiði einstæðra foreldra tel ég jafnréttismarkmið frumvarpsins vega þyngra þannig að ég er ánægð með að framsali réttinda verði breytt með ákveðna íhaldssemi að leiðarljósi. Þarna er verið að bregðast við aðstæðum sem ég tel fyllilega rétt að bregðast við, að heimilt sé að framselja réttindi foreldra til töku fæðingarorlofs þegar um þær aðstæður er að ræða, t.d. þegar annað foreldri getur sannanlega ekki nýtt sér réttinn, eins og þegar um fangelsisvist eða sjúkrahússvist er að ræða. Ég tel það líka vera mjög mikið sanngirnismál og fagna því. Ég er ánægð með að þarna eru aukin réttindi forsjárlausra foreldra og tel það vera í samræmi við það markmið að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður, að verið sé að höfða til jafnrar foreldraábyrgðar feðra og mæðra.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið. Ég endurtek að ég tel þetta vera breytingar til hins betra og að við séum að bæta góð lög og taka tillit til sjónarmiða sem við gátum ekki séð fyrir og því fagna ég þessu frumvarpi.