135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[12:12]
Hlusta

Sigfús Karlsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga eða breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Í sjálfu sér ekki miklu að bæta við það sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum. Ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið hér fram og fagna frumvarpinu.

Ég hins vegar get ekki neitað því að ég verð að deila áhyggjum mínum með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um þann greinarmun sem gerður er á launþegum og sjálfstætt starfandi mönnum. Ég tel að þar sé, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi, verið að flokka fólk í landinu í tvo hópa, sem mér finnst ótækt.

Mín aðalvinna er við skattskil og þess háttar og er ég undrandi á þeirri tillögu eða breytingu að færa framkvæmdina í eftirlitinu frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar. Ég tel að við séum með það viðkvæmar upplýsingar í höndunum að við getum ekki fært þær á milli stofnana. Við höfum horft á skattyfirvöld sem stofnun sem við berum virðingu fyrir þar sem eru geymdar viðkvæmar upplýsingar, eins og upplýsingar um laun og annað eru. Ég verð, hæstv. ráðherra, að biðja um betri rökstuðning fyrir því hvers vegna þetta er gert þó að heimild sé í lögum fyrir þessum breytingum. Það er nú einungis þetta sem ég vildi deila með ykkur.