135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[12:14]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aftur inn í umræðuna í annarri stuttri ræðu til að ræða aðeins ítarlegar um framsal sjálfstæða réttarins milli foreldra sem mikið hefur verið rætt.

Í núgildandi lögum eiga báðir foreldrar jafnan rétt til fæðingarorlofs óháð því hvort þeir starfa á almennum eða opinberum markaði, hvort þeir eru karl eða kona eða hverjar aðstæður þeirra eru. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði og sameiginlega eiga foreldrarnir þriggja mánaða rétt sem þeir geta skipt á milli sín eins og þeir vilja en sjálfstæði rétturinn er ekki framseljanlegur.

Markmið laganna, svo ég endurtaki það eina ferðina enn, var að tryggja barni samvistir við bæði föður og móður og því er líka ætlað að gera báðum kynjum jafnkleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Með þessi sjónarmið í huga var ákveðið að skilyrða, a.m.k. til byrjunar, rétt hvors foreldris en leyfa ekki framsal sjálfstæða réttarins nema í því tilviki þegar um andlát annars hvors foreldris er að ræða.

Um þessi framsalsatriði hafa verið skiptar skoðanir alla tíð, bæði út frá sjónarmiði forsjárlausra foreldra og einstæðu foreldranna sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir rakti áðan en það hafa líka verið skiptar skoðanir út frá því sjónarmiði að það eigi ekki að vera löggjafans eða opinberra aðila að hafa afskipti af því hvernig foreldrar ákveða að skipuleggja fæðingarorlof sitt sín á milli.

Það var lögð áhersla á það í upphafi við setningu laganna að þetta atriði yrði endurskoðað þegar reynsla væri komin á lögin og þegar lögin voru endurskoðuð árið 2004 var ekki talin ástæða til að hrófla við þessu atriði. Ég hef sagt það og segi það enn að ég mun fagna þeim degi þegar við setjum það í lög að það sé foreldranna að ákveða hvernig þeir hagi fæðingarorlofi sínu og skiptingu á því. Ég álít að það verði tímapunktur í jafnréttisbaráttunni, sem ég mun fagna: Þegar við höfum náð þeim árangri að það þurfi ekki að hvetja annað hvort foreldrið, þau geri þetta eftir því sem þau vilja og telji sig bæði hafa hag af því að fara í fæðingarorlof. Ég held að við séum ekki enn komin að þeim tímapunkti og þess vegna tel ég ekki ráðlegt að breyta þessu enn sem komið er og því ítreka ég þá íhaldssemi sem ég talaði um í fyrri ræðu minni vegna þess að við rannsóknir á töku fæðingarorlofsins hefur komið fram að mæðurnar taka yfirleitt lengra og samfelldra fæðingarorlof og þær nota að stærstum hluta til sameiginlegu mánuðina þrjá. Karlar hafa notað sjálfstæða réttinn og það er einn af stóru sigrunum í þessu máli. Ef það yrði leyft að framselja réttinn tel ég víst að það hefði einungis í för með sér lengingu fyrir mæður og þá væri það að mínu mati skref til baka í jafnréttisumræðunni. Þetta hefur verið mikið rætt, ég get staðfest það þar sem ég var í nefndinni sem samdi lögin í upphafi, staða einstæðra foreldra hefur mikið verið til umræðu og þetta kom fram í félagsmálanefndinni á sínum tíma og var vikið að þessu í upprunalega nefndarálitinu þannig að þetta er ekkert nýtt sjónarmið. En a.m.k. var í upphafi, eins og hér hefur komið fram, litið svo á að jafnréttissjónarmiðin ættu að vega þyngra.

Ég er því ekki sammála hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur þrátt fyrir að ég hafi ákveðinn skilning á sjónarmiðum einstæðra foreldra, sérstaklega út frá hagsmunum barnsins eins og hún rakti hérna áðan, en ég teldi að markmiðum laganna um jafna foreldraábyrgð yrði stefnt í hættu ef opnað yrði á yfirfærslu réttindanna enn sem stendur. Það er nefnilega þannig að komi til þess að foreldri með forsjá geti fengið aukið fæðingarorlof nýti forsjárlaust foreldri ekki rétt sinn, hlýtur það að skapa aukna hættu á því að fyrrnefnda foreldrið veiti ekki áðurnefnt samþykki sem núna er skilyrði og hættan er líka sú að það foreldri sem með forsjána fer veiti ekki samþykki til þess að hitt geti nýtt sér fæðingarorlofið. Mér finnst þetta vera mikilvægt atriði.

Ég vildi, virðulegi forseti, koma þessum sjónarmiðum á framfæri og treysti því að þetta verði rætt í félagsmálanefnd.