135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[14:24]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér fjöllum við um spennandi viðfangsefni þar sem staða aldraðra og öryrkja er styrkt með lagasetningu og kemur í framhaldi af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um bættan hag aldraðra og öryrkja sem er sérstakur kafli í stefnuyfirlýsingunni. Sú yfirlýsing er auðvitað samin í framhaldi af stefnu flokkanna, raunar allra í þessum málaflokki, fyrir kosningar og birtist hér í plöggum. Hér eru stigin verulega stór skref og raunar er verið að uppfylla mjög stóran hluta af stefnuyfirlýsingunni með þessum frumvörpum. Áfram verður unnið að endurbótum á næstu árum, 2008–2010, að ýmsum þáttum eins og hér hefur komið fram en það hefur reynst — og var svo sem vitað fyrir kosningar — þrautin þyngri að leiðrétta kerfið vegna þess að um leið og maður lagar á einum stað skerðast hlutirnir á öðrum stað.

Ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, fara yfir stefnuyfirlýsinguna í nokkrum aðalatriðum þá er stefnt að því að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja og að einföldun almannatryggingakerfisins. Eins og hér hefur þegar komið fram er verkefnisstjórn að vinna að þeim hugmyndum og við hlökkum til að fá tækifæri til þess að fjalla um það með hvaða hætti hægt er að einfalda almannatryggingakerfið. Hvernig hægt er að gera neytendaviðmótið vinsamlegra og skiljanlegra þannig að flækjustigið sé þá a.m.k. á bak við en ekki í viðmótinu gagnvart öldruðum eða öryrkjum. Þetta er ekkert smáverkefni og má sjá í frumvarpinu að ýmislegt er óklárað einmitt út af þessu.

Í kafla stefnuyfirlýsingarinnar um bættan hag aldraðra og öryrkja er talað um að draga úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu og það er einmitt gert hér. Stefnt er að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67–70 ára, það er gert hér. Sagt er að afnema eigi að fullu tekjutengingu launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga og það var gert á sumarþinginu sl. sumar. Eins er hluti lífeyristekna eldri borgara undanskilinn skerðingum í almannatryggingakerfinu. Þar erum við aftur komin að hlut sem þarf að vinna betur í og raunar gildir það, sem mér finnst vera aðalveikleikinn hjá okkur hér miðað við hvað þetta er gott í heildina, að við þurfum með einhverjum hætti að tryggja að grunnurinn hækki, þ.e. að bætur til þeirra sem ekkert hafa nema grunnlífeyrinn og tekjutengingarnar. Að þær 25 þús. kr. sem áætlað er að komi til þeirra sem ekki njóta lífeyrissjóðs skili sér óskertar til þeirra. Miðað við lögin í dag og þær tekjutengingar sem þar eru munu bæturnar skerðast, allt niður í 8 þús. kr., og það er auðvitað alls kostar ófullnægjandi fyrir þennan lágtekjuhóp. Þetta atriði er skilið eftir í frumvarpinu einmitt til þess að reyna að skoða hvernig hægt er að komast hjá svona mikilli skerðingu. Það er vandséð hvernig það er hægt nema þá með almennum breytingum en við skulum sjá hvað okkur tekst að gera í umfjöllun um frumvarpið. Boðað er að tillögur um þetta komi í félagsmálanefnd í meðförum þingsins.

Sama gildir með lífeyristekjurnar. Það var svo sem athyglisverð ábending hér að kominn væri einhver dómur um að flokka mætti lífeyristekjur sem atvinnutekjur. Þá er málið í sjálfu sér leyst því að þá fer það undir frítekjumarkið að einhverju leyti en málið þarf að skoða vel í nefnd og útfæra betur. Á sínum tíma voru menn með hugmyndir um að lífeyrissjóðirnir yrðu meðhöndlaðir eins og fjármagnstekjur með 10% skatti og það er eitthvað sem auðvitað hefði þurft að skoða líka. Það er sem sagt ýmislegt eftir en það eru þó engar smáviðbætur sem koma hér og ástæða er til þess að halda þeim til haga. Það ber að fagna því sem komið hefur hér fram með frítekjumarkið fyrir 67–70 ára, allt að 100 þús. kr. á mánuði, og við vorum áður búin að taka frítekjur á alla sem eru eldri en sjötugir. Við tökum hér frítekjumark á fjármagnstekjur sem nýtist mjög mörgum. Með því mætum við þessum skerðingum og eftirááætlunum sem hafa í hugum margra breytt Tryggingastofnun í innheimtustofnun þar sem alltaf er verið að leiðrétta tekjuáætlanir fólks eftir á og þar með að draga úr bótum.

Hægt væri að tiltaka mörg af þeim atriðum sem hér er búið að nefna en ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég hlakka mjög til að fá að glíma við þetta í félags- og tryggingamálanefnd og fagna þeim stóru skrefum sem hér eru stigin um leið og ég árétta að þetta eru fyrstu skrefin af mörgum til að leiðrétta hag öryrkja og aldraðra. Ég vona að okkur miði vel áfram á síðari hluta kjörtímabilsins þó að nánast öll fyrirheitin sem gefin eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar séu þegar komin í ákveðinn farveg eða til framkvæmda ef frumvarpið verður að lögum.