135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[14:36]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Það er nú búið að gera býsna góða grein fyrir þessu frumvarpi og innihaldi þess í umræðum sem hér hafa farið fram og hafa að mörgu leyti verið mjög góðar. Það er búið að fara yfir það sem meginbreytingarnar ganga út á í frumvarpinu. Þar hefur meðal annars verið rætt um vasapeninga vistmanna á stofnunum sem eru hækkaðir um tæp 30% sem mér finnst bera að fagna alveg sérstaklega. Frítekjumarkið er annar þáttur, þar sem frítekjumark vegna atvinnuleysistekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára er hækkað í 100 þús. kr. á mánuði. Reyndar hafa ýmsir hér hafa rætt um að þeir skilji ekki af hverju eldri borgurum er skipt í tvo hópa, þ.e. 67–70 ára og 70 ára og eldri. En þarna er alveg klárlega verið þó að bæta kjör þessa hóps, 67–70 ára, og ljóst er líka að ef viðkomandi er að vinna á þessum aldri, 67–70 ára, þá er hann líka að hækka lífeyrisréttindi sín sem síðan nýtast þá í kjölfarið ef hann hættir að vinna. Ef viðkomandi heldur hins vegar áfram að vinna er ljóst að ekki verða skerðingar sem gerir þá ýmsum kleift að vera lengur á vinnumarkaði en ella og gerir fólkið miklu meira kleift líka að draga úr sinni vinnu þannig að viðkomandi geti bætt kjör sín umfram þær bætur sem það fær frá ríkinu án þess að þær skerðist og því ber að fagna.

Hér er líka tekið á skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar og hún verður afnumin frá 1. janúar og ég held að sú skerðingarregla sem var inni hafi nú nánast verið mistök og verið mjög slæm og komið fólki oft í opna skjöldu þegar það leysti út þennan séreignarlífeyrissparnað.

Eins og gengur þá kostar nú allt sína peninga og síðustu kjarasamningar hafa kostað ríkissjóð, ég held að sé reiknað í kringum 20 milljarða. Þetta frumvarp hérna er reiknað á tæpa 3,5 milljarða og síðan hafa ýmsir aðrir liðir dottið inn á yfirstandandi þingi þannig að ljóst er að menn eru alveg klárlega að ganga á ríkissjóð í þessum efnum.

Þá kemur að því hvernig beri að eyða úr þessum potti og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem talaði á undan mér sagði að það væru mannréttindi, sem vissulega að mörgu leyti má taka undir, að bætur vegna tekna maka séu ekki skertar. Jafnframt sagði hann að bætur þeirra sem hefðu lökust kjörin út úr þessu bótakerfi okkar væru alveg hrikalega lágar. Ég get í sjálfu sér tekið undir hvort tveggja. En í ljósi þess að við höfum bara úr ákveðnum potti að spila þá er spurningin þessi kannski: Er rétt að bæta kjör þeirra — ef við lítum á fjölskylduna sem eina einingu að þá er alveg klárt að við erum að auka framlag kannski til fjölskyldna — ef við horfum á hana sem slíka — sem hafa mjög góðar tekjur fyrir á meðan þeir sem eru á verstu kjörunum hafa það ekki mjög gott og eru með lágar bætur? Þar af leiðir að það má segja að við séum að einhverju leyti að taka þá peningana, í því að láta þá sem hafa meira á milli handanna, fjölskyldur sem hafa meira á milli handanna leggja til þeirra sem hafa minna á milli handanna. Við getum þá spáð í það að ef öryrki í fjölskyldu sem hefur góðar fjölskyldutekjur lendir í skilnaði svo dæmi sé tekið þá verður þetta alveg gríðarleg skerðing fyrir viðkomandi og ætli viðkomandi hefði þá ekki frekar kosið að sem einstaklingur, einn og sjálfur standandi á eigin fótum, hefði hærri bætur sem slíkur heldur en að hækka þá bætur fjölskyldunnar sem kannski hafði háar tekjur fyrir. Þetta er allt spurning því peningarnir eru ekki endalausir.

Til að setja þetta í enn þá stærra samhengi hafa margir hv. þingmenn sem hér hafa komið upp talað um að ríkissjóður standi vel. Það er rétt. Hann stendur vel. En það er líka þannig að tekjur ríkissjóðs hafa verið mjög miklar á undanförnum árum. Það skyldi þó ekki vera að núna í því efnahagsástandi sem við erum að upplifa þar sem eru svona ákveðnir erfiðleikar í bankageiranum — við höfum þurft að skerða þorskinn og núna eru nýjustu fréttir með loðnuna alveg hreint hrikalegar, alveg hrikalegar — þetta hlýtur að þýða minni tekjur ríkissjóðs. Auðvitað þurfum við alltaf að spá í það þegar við erum að eyða úr ríkissjóði eins og við erum að gera núna og allir fagna því alveg út í eitt, að þá er alveg ljóst að við verðum að horfa á þetta í samhengi og það var kallað eftir því hér áðan: „Verðum við ekki að horfa á heildarmyndina?“ Ég tek undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Við þurfum að horfa á heildarmyndina og heildarmyndin er sú að við erum sífellt að eyða meira úr ríkissjóði um leið og við sjáum að tekjurnar eru mjög líklega og sennilega alveg pottþétt að minnka. Þetta fer nú ekki alveg saman.

Hitt er annað mál að ég styð þetta frumvarp eins og það er hérna í heild sinni. Mér finnst margt mjög gott í þessu. En við megum heldur ekki gleyma því burt séð frá þessu frumvarpi að almennt séð þegar við hækkum bætur af hvaða toga sem þær eru að þá verður eftirsóknarverðara að komast í þær bætur. Það verður alltaf eftirsóknarverðara að komast í bætur eftir því sem þær hækka. Þess vegna snýst þetta alltaf um það að láta þá raunverulega fá bæturnar sem þurfa á þeim að halda en ekki auka umfang kerfisins þar sem það bætist við það hjá þeim sem þurfa kannski ekki jafnmikið á því að halda.

Þá kemur líka önnur spurning því við erum með mjög ströng viðurlög við skattalagabrotum, mjög ströng viðurlög við þeim. Þá er líka spurning að þeir sem eru í almannatryggingakerfinu og víðar þiggjandi bætur frá ríkinu og fara ekki þangað inn á réttum forsendum svo maður tali nú bara alveg hreint út, sem svíkja út úr kerfinu, hvort ekki þurfi líka rétt eins og með skattkerfið að tryggja að viðurlögin og refsingin fyrir að svíkja út úr ríkinu með þeim hætti verði mun miklu skýrari heldur en nú er, að refsingin fyrir að svíkja út úr kerfinu verði þyngri en hún er í almannatryggingakerfinu rétt eins og hún er mjög mikil í skattkerfinu. Það er auðvitað enginn munur á því að svíkja út úr ríkinu í gegnum almannatryggingakerfið eða í gegnum skattkerfið. Það er enginn munur á því. Hins vegar eru viðurlögin mjög ólík og í rauninni mjög litlar bjargir sem Tryggingastofnun hefur til þess að taka á þessum málum.

Hæstv. forseti. Mig langaði að nálgast þetta svona með aðeins öðrum hætti en er búið að nálgast þessa umræðu í dag því það er einfaldlega þannig að við getum ekki reiknað með því að ríkissjóður verði jafnsterkur og hann hefur verið undanfarin ár. Það er nú bara staðreynd málsins.