135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:25]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki fara út í mannjöfnuð við hv. þm. Ellert B. Schram um það hvort við höfum gengið til nokkurs þroska, það er nú almennt viðurkennt að menn gera það með árunum. Síðan er spurningin hvort menn fara þá vegferð sem þeir fara í pólitík lengur eða skemur — en það er annað mál — eða stíga rétt skref eða röng.

Hv. þingmaður benti á að það velferðarkerfi sem við búum við er í grunninn frá 1936 og hefur þar af leiðandi enst nokkuð vel. Í sjálfu sér er líka í grunninn samfélagsleg sátt um velferðarkerfið. Það er hins vegar spurning með hvaða hætti og hvernig við viljum haga því. Eins og ég benti á áðan, og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson benti á í ræðu sinni, höfum við frjálslynd lagt til ákveðna hluti hvað það varðar sem ganga lengra en það sem lagt er til í því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Við fögnum því sem vel er gert og er til bóta þó að við vildum hafa haft það öðruvísi eins og við höfum þegar gert grein fyrir í málflutningi okkar — og, hv. þm. Ellert B. Schram, ekki skal dregið úr því. Í sjálfu sér sé ég ekki annað en að við eigum samleið á þjóðleiðinni upp á Akranes þó að Ellert vilji ekki fylgja okkur frjálslyndum til Akureyrar. Við viljum fara lengra til bóta fyrir þá sem lakast hafa kjörin í þjóðfélaginu.

En þetta liggur fyrir. Við höfum að mörgu leyti tekið undir þau sjónarmið sem hér liggja fyrir og bent á að frumvarpið væri til bóta þó að við höfum jafnframt gert ítarlega grein fyrir þeim tillögum sem við höfum lagt til í þessu efni.