135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:36]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram athyglisverð og góð umræða, og á stundum skemmtileg, um almannatryggingakerfið, ekki bara frumvarpið sem við ræðum hér heldur almennt um uppbygginguna á almannatryggingum og hvert skuli stefna með þær og er það vel. Ég vil t.d. segja að ég lít á það sem eitt af stærstu verkefnum félags- og tryggingamálaráðuneytisins að fara í einföldun á þessu kerfi þannig að það þjóni fólki betur og að því verði breytt verulega frá því sem nú er og skili auðvitað meiri og betri lífskjörum til lífeyrisþega og ég heyri að ýmsir sem hér hafa talað eru á þeirri skoðun. Hér hefur verið rætt mikið um það hvort þær tillögur sem við erum að fjalla um séu í átt til einföldunar á kerfinu og það eru eitthvað skiptar skoðanir um það en mín skoðun er sú að hér séu mörg skref tekin í átt til slíkrar einföldunar.

Ég nefni bara frítekjumörkin, bæði hjá ellilífeyrisþegum vegna atvinnutekna og öryrkjum vegna lífeyrissjóðstekna. Það er vissulega einföldun á kerfinu. Samræming frítekjumarka og skerðingarhlutfalls elli- og örorkulífeyris er vissulega einföldun. Afnám skerðinga vegna séreignarsparnaðar er nú aldeilis einföldun vegna þess að það hefur verið mjög óréttlátt að hafa skerðinguna í séreignarlífeyrissparnaðinum eins og hún hefur verið. Við erum að tala um að skerðing vegna tekna maka verði afnumin sem hefur heldur betur flækt kerfið og gert það óréttlátt. Ég tók dæmi um það áðan hvað þetta getur þýtt fyrir einstakling. Ég tók dæmi af maka sem er heima og maka sem er á vinnumarkaði með 200 þús. kr. og tekjur makans sem er heima hafa verið skertar um 19 þús. kr. á mánuði. Nú fær þessi einstaklingur þá skerðingu að fullu bætta og fær um 230 þús. kr. hærri tekjur á ári. Þetta er vissulega einföldun.

90 þús. kr. frítekjumark vegna fjármagnstekna mun draga verulega úr ofgreiðslum og sannarlega er það einföldun á kerfinu og því óréttlæti sem hefur verið varðandi þessar ofgreiðslur. Ég fór yfir það fyrr í dag að þegar við opnum fyrir 90 þús. kr. frítekjumarki á fjármagnstekjur þá mun það þýða að lífeyrir 20.400 einstaklinga, öryrkja og aldraðra, verður hækkaður. Það eru 90% aldraðra og 95% öryrkja sem hafa fjármagnstekjur undir þessu marki og munu þá ekki lenda í ofgreiðslum. Við erum að tala um að áætlanir bótaþega vegna fjármagnstekna hafa verið 22 milljarðar svo að við tökum síðasta ár en reyndin er sú að þær eru helmingi hærri. Allt þetta er vissulega einföldun á kerfinu. Ég vil líka segja það að fallið á krónunni sem ég nefndi sem er náttúrlega alveg hrikalegt dæmi um skerðingar í þessu kerfi.

Ég tek t.d. undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að við höfum ekki lokið vinnunni við þetta, þetta er áfangi á þeirri leið sem ég nefndi, að einföldun og uppstokkun á þessu kerfi sem á að skila okkur betra og skilvirkara almannatryggingakerfi. Ég vil líka nefna það og kannski mótmæla því sem hann sagði að mér finnst ekki nein sjálfumgleði eða sjálfshól í því enda þótt við mælum hér fyrir einum góðum áfanga á þessari leið. Þessi áfangi var unninn í góðri sátt með samtökum aldraðra og samtökum öryrkja sem áttu sæti í ráðgjafahóp sem um þetta mál fjallaði ásamt verkefnisstjórninni og enginn skilaði séráliti, allir voru sammála um þann áfanga sem þarna náðist. Aldraðir og öryrkjar í þessum hópi vildu kannski fara örlítið hvor í sína áttina þegar þeir horfðu á sinn hóp og þess vegna förum við kannski ekki nákvæmlega sömu leiðir í þessu frumvarpi fyrir aldraða annars vegar og öryrkja hins vegar. Til dæmis töldu öryrkjar sig ekki hafa mikið gagn af þeim 25 þús. kr. sem á að bæta þeim sem fá ekkert úr lífeyrissjóði. Þeir vildu frekar fara aðrar leiðir í þessu efni. Þess vegna er fært aðeins í sundur á milli þeirra leiða sem eru farnar núna að því er varðar þessa hópa. Ég hygg að það sé rétt vegna þess að þarfir aldraðra og öryrkja þurfa ekki endilega alltaf að fara saman og við getum því farið mismunandi leiðir þegar verið er að bæta lífskjör þessara hópa.

Ég er alveg sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni að við þurfum að gera miklu betur, ég skal vera fyrsta manneskjan til að segja það hér og nú að við þurfum að gera miklu betur. En mér finnst þetta ágætur áfangi á þeim stutta tíma sem verkefnisstjórnin og ráðgjafahópurinn höfðu, tveir mánuðir, það var nú ekki meira, til þess að vinna á þessu flókna kerfi, og ég vil nota tækifærið hér til þess að þakka verkefnisstjórninni og ráðgjafahópnum, sem í áttu sæti m.a. aðilar vinnumarkaðarins og samtök og hagsmunasamtök lífeyrisþega vegna þess að ég held að þetta sé ágætur áfangi sem við höfum náð núna.

Af því að ég er að svara Ögmundi Jónassyni og hann spurði um hjúkrunarrýmin þá er það alveg rétt að við lofuðum 400 hjúkrunarrýmum og þeim átti að hraða og að því er nú unnið af fullum krafti. Ég hygg að fyrr en seinna munum við sjá að við þetta verður staðið og það mun ekki líða á löngu að menn verði varir við það svo ég hafi nú ekki fleiri orð um það á þessari stundu.

Ég vil líka reyna að svara nokkrum þeirra spurninga sem hér komu fram í þeirri röð sem þær komu þó að ég hafi tekið hv. þm. Ögmund Jónasson eilítið fram fyrir af því að ég var að tala almennt um uppbygginguna á almannatryggingakerfinu. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spyr hvort við þá breytingu sem verður á Tryggingastofnun þegar heilbrigðisþátturinn flyst í sérstofnun og sjúkratryggingarnar þar með, verði þjónustan á einum stað. Ég skil vel áhyggjur þingmannsins af því að ég er henni hjartanlega sammála, þegar við breytum uppbyggingunni í almannatryggingakerfinu og skiptum Tryggingastofnun ríkisins upp þá hljótum við að horfa á allar breytingar út frá því hvernig við þjónustum best þá einstaklinga sem þurfa að leita til Tryggingastofnunar eða sjúkratrygginga. Það vill svo til að ýmsir sem þurfa að leita til lífeyristrygginga þurfa líka að leita til sjúkratrygginga og öfugt. Við verðum að vinna með málið þannig að þjónustan verði á einum stað af því að mér finnst mjög óheppilegt ef sú verður niðurstaðan að fólk þurfi að leita á tvo staði eftir þjónustu við þessa breytingu. Þetta er ekki útkljáð mál, við erum að vinna með þetta núna en þetta er skoðun mín á þessu máli.

Spurt er um hvenær búast megi við að sú nefnd sem vinnur á vegum fjármálaráðuneytisins skili niðurstöðu sinni til þingsins í formi frumvarps sem felur í sér að aldraðir sem engar tekjur hafa úr lífeyrissjóðum eða undir 25 þús. kr. fái þær greiðslur. Ég vona að það verði sem allra fyrst. Þetta er í umsjá fjármálaráðuneytisins og ég stýri ekki því verki en fylgist sannarlega með því. Menn eru að skoða ýmsar leiðir í því, annaðhvort í gegnum Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda eða í gegnum skattkerfið, og voru bara ekki tilbúnir með þær tillögur þegar þetta mál var tilbúið, sem lá á að setja inn í þingið af því að gildistakan á fyrsta þætti þess er 1. apríl en gildistakan á því sem er í fjármálaráðuneytinu er 1. júlí þannig að það gat beðið heldur lengur en það var ekki forsvaranlegt gagnvart þinginu að bíða lengur með að setja þetta frumvarp inn í þingið. Ég vona að það verði sem fyrst.

Sama gildir varðandi það sem vantar í þetta frumvarp og snýr að öryrkjunum sem er þá ígildi frítekjumarks upp að 100 þús. kr. sem aldraðir fá núna. Öryrkjar voru sáttir við að þetta yrði látið bíða en þó þannig að við umfjöllun nefndarinnar um málið kæmu fram hugmyndir frá nefnd forsætisráðuneytisins sem er að fjalla um starfsendurhæfingarmálin og breytt örorkumat, þannig að hægt væri að taka tillit til þessa í meðförum málsins á þinginu. Ég mun auðvitað fylgja því fast eftir að við þetta verði staðið vegna þess að við getum ekki lokið þingstörfum með því að skilja eitthvert gat eftir að því er varðar öryrkjana í þessu efni. Því verður fylgt fast eftir.

Það má líka spyrja eins og hér var spurt: Af hverju fá aldraðir ekki 25 þús. kr. frítekjumark á lífeyrisgreiðslur eins og öryrkjar? Því er til að svara, og kom ég aðeins inn á það áðan, að aldraðir og öryrkjar voru ekki alveg sammála um hvaða leiðir ætti að fara þannig að niðurstaðan er sú að öryrkjar fá 25 þús. kr. frítekjumark á lífeyrisgreiðslur en aldraðir fá 25 þús. kr., þ.e. þeir sem ekkert fá úr lífeyrissjóðum eða frá 0 upp að 25 þús. kr. Við getum svo velt því fyrir okkur í því sambandi hve margir eru núna á strípuðum bótum eins og sagt er og hafa ekkert nema bætur úr almannatryggingakerfinu og fá ekkert úr lífeyrissjóðum. Það eru 300 ellilífeyrisþegar eða 1,2% lífeyrisþega sem eru með 130.700 kr. á mánuði og hafa ekkert annað. Þeir munu nú fá 25 þús. kr. til viðbótar sem skerðast réttilega, eins og hv. þm. Ellert B. Schram nefndi, með skerðingum þeim sem gilda í almannatryggingakerfinu. Síðan eru örorkulífeyrisþegar, það eru 16.080 manns, 12,7% örorkulífeyrisþega fá óskertar bætur úr almannatryggingum sem þýðir að þeir hafa lítið úr lífeyrissjóðunum. Þess vegna fórum inn við þessa leið sem er aldurstengd örorkuuppbót sem er verulega hækkuð.

Ég vil halda því til haga — ég sé að tíminn rennur hratt út — að í þeim kjarasamningum sem gerðir voru nú er mikilvægt ákvæði sem fáir hafa nefnt fyrir lífeyrisþega en þar er lagt til að í breytingum á almannatryggingakerfinu í því skyni að einfalda það verði skoðaðar leiðir til að setja ákveðin lágmarksviðmið í framfærslu. Lífeyrisþegar hafa verið að kalla eftir slíku og með þeim 25 þús. kr. sem koma núna til aldraðra, sem eru í dag með 130 þús. kr., verðum við þó komin upp í 150 þús. kr. lágmarksgreiðslu fyrir þá sem ekkert hafa úr lífeyrissjóði. Það er vissulega áfangi.

Þá má spyrja eins og hér var spurt: Af hverju dettur aldurstengda örorkan niður við 67 ára aldur? Margir hafa talað um þetta og telja að hún eigi að halda áfram. Það eru rök fyrir því, með og á móti. Ég heyrði dæmi um það frá manni sem kom til mín um daginn að vegna þess að hann er 67 ára missir hann aldurstengdu örorkuna sem var sú hæsta af því að hann varð ungur öryrki og við það minnka tekjur hans núna um 25 þús. kr. og það er verulegt bit í því fyrir þennan mann. Aldurstengda örorkan var hugsuð sérstaklega fyrir þá sem verða öryrkjar ungir og hafa ekki haft tök á að greiða í lífeyrissjóð, það var hugsunin á bak við hana. Ég hygg að við munum skoða þetta allt í heildinni í þeirri vinnu sem nú er í gangi, og við munum væntanlega sjá fyrir endann á fljótlega, og taka inn í umfjöllun þetta mál, þ.e. breytingar á örorkumatinu og starfsendurhæfingunni. Þetta mun örugglega koma til umræðu þar og við verðum bara að sjá hvernig lyktirnar verða á því.

Ég sé að tíma mínum er alveg að ljúka. Ég tók eftir að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddi mikið um lífeyrisgreiðslur og atvinnutekjur. Tekjuhugtak almannatrygginga er byggt á skilgreiningu í skattalögum og þar er skilið greinilega á milli lífeyrissjóðstekna og atvinnutekna, það er gert með þeim hætti en ég skil vel hvað hv. þingmaður er að fara með vísan í þennan dóm. Ég vil þá svara honum, af því að hann spurði hvers vegna aldraðir fengju ekki líka frítekjumarkið á lífeyrisgreiðslurnar, sem ég veit að hv. þingmaður er mikill baráttumaður fyrir, að það stendur í stjórnarsáttmálanum:

„Skoðað verði hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingum í almannatryggingakerfinu.“

Þetta verður skoðað núna þegar við förum í einföldun á almannatryggingakerfinu og fyrsta skrefið er stigið gagnvart öryrkjunum. Það er miklu dýrara eins og hv. þingmaður veit að taka þetta upp gagnvart lífeyrisþegunum en þetta kostar 800 milljónir vegna öryrkjanna. Ef við værum með svipað þak, 25 þús. kr. þak, mundi þetta sennilega kosta upp undir 3 milljarða eða kannski rúmlega það, 3,4 milljarða. Við þurfum að skoða þetta allt í samhengi og ég veit að aldraðir hafa barist mikið fyrir því að fá líka frítekjumark á lífeyristekjur sínar .

Ég sé að tími minn er búinn en ég vona að mér hafi nokkurn veginn tekist að svara þeim spurningum sem hér hafa komið fram. Við erum að sjá miklar breytingar almennt á lífeyrisgreiðslum lífeyrisþega, lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum vega sífellt þyngra og hafa miklu meira vægi en almannatryggingarnar og við tökum auðvitað mið af því í þeirri skoðun sem nú fer fram og einföldun á almannatryggingakerfinu sem við munum væntanlega sjá í lok þessa árs.

Ég ítreka það og vil halda því til haga (Forseti hringir.) að fyrsti liður í þessu frumvarpi og mikilvægur, um makatenginguna, á að taka gildi 1. apríl. Ég veit að það er stuttur tími fyrir nefndina að skoða málið en ég vona (Forseti hringir.) að hún hafi hliðsjón af því.