135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:52]
Hlusta

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil halda því til haga varðandi aldurstengdu uppbótina að það er alveg meingallað að hún skuli ekki halda áfram eftir að fólk nær 67 ára aldri því eins og hæstv. ráðherra sagði áðan þá er þetta hugsað sem aukagreiðsla til þeirra sem ungir detta út af vinnumarkaði vegna örorku og geta þar af leiðandi ekki unnið sér inn í lífeyrissjóð.

Þegar þessir einstaklingar verða 67 ára þá eiga þeir ekkert frekar lífeyrissjóð en þeir áttu áður en þeir náðu þeim aldri og þess vegna er náttúrlega alveg hræðilegt að þeir skuli lækka í tekjum um það sem varðar aldurstengdu uppbótina og það komi ekkert í staðinn. Það er enginn lífeyrissjóður sem kemur í staðinn til að toga tekjurnar upp. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að þessu verði breytt svo aldurstengda uppbótin sem fólk fær 18 ára, 24 ára, 38 ára, fylgi því áfram eftir að 67 ára aldri er náð.