135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:53]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka að ég skil vel sjónarmið hv. þingmanns sem hún lýsir hér og gerði áðan. En það er ekki rétt að það taki ekkert við þegar aldurstengdu örorkunni sleppir því þá taka náttúrlega við lífeyrissjóðsgreiðslur eins og þeir fá sem verða 67 ára og við skulum vona að okkur takist að bæta það verulega frá því sem er núna.

Greiðslurnar eru auðvitað skammarlega lágar, ég tek alveg undir það eins og hér var sagt fyrr í dag, 130 þús. kr. eru ekki framfærslueyrir sem nokkur maður getur lifað af. Þess vegna þurfum við að hraða þeirri vinnu sem er í gangi eins og kostur er til að bæta verulega kjör þeirra einstaklinga sem hafa lítið annað en bætur almannatrygginga. Það er gert í þessum áfanga með því að setja inn 25 þús. kr., annaðhvort gegnum skattkerfið eða söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Það er auðvitað eitt af forgangsmálunum að gera betur við þá hópa sem hafa úr litlu öðru að spila en því sem kemur frá almannatryggingakerfinu.

En ég vil líka halda því til haga eins og ég sagði áðan að við erum að skoða þetta í samhengi við þá endurskoðun sem nú er í gangi á endurhæfingar- og örorkumatinu og við skulum sjá hvað kemur út úr því. Ég hef líka heyrt mismunandi skoðanir í röðum öryrkjanna sjálfra hvort það eigi að viðhalda þessu aldurstengda örorkukerfi eða hvort það eigi að fara aðrar leiðir sem nú er verið að skoða í gegnum endurhæfingarkerfið og örorkumatið.