135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir það að málið skyldi hafa verið tekið til ítarlegrar umfjöllunar á nýjan leik í nefndinni eftir 2. umr. Vissulega stóðu nokkuð mörg atriði út af vegna þess skamma tíma sem gefist hafði í umfjöllun um málið í nefndinni eftir 1. umr. og í 2. umr. komu í ljós ágreiningsefni sem nauðsynlegt var að skoða betur. Málið var tekið á dagskrá nefndarinnar á þremur fundum ef ekki fjórum og átti ég þess kost að sitja sem varamaður hv. þm. Ögmundar Jónassonar á tveimur af þessum fundum eftir 2. umr.

Ég vil sérstaklega fagna viðbótum við 2. gr., að ákveðið hafi verið að leggja til að hugtakið kynbundið ofbeldi verði skilgreint í 2. gr. og þá með þeim hætti sem Mannréttindaskrifstofa Íslands lagði til, þ.e. á þann veg sem Sameinuðu þjóðirnar hafa mælst til að þjóðir geri við skilgreiningu á kynbundnu ofbeldi. Ég tel þetta til mikilla bóta og er afar þakklát fyrir að þetta skyldi hafa náð fram að ganga.

Ég fagna einnig breytingunum á 8. gr., þ.e. skipan Jafnréttisráðs. Mér var mikið í mun, eins og kom fram í 2. umr. um málið, að Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum ætti fulltrúa í Jafnréttisráði. Ég fagna því að nefndin skyldi opna augu sín fyrir því að það var vanhugsuð ráðstöfun, sem kom fram í breytingartillögu frá nefndinni við 2. umr., að taka rannsóknastofuna út. Nú er hún komin aftur inn í Jafnréttisráð og ég er mjög sátt við það og fagna því.

Mig langar hins vegar til að segja varðandi skipan Jafnréttisráðsins: Mér finnst að betur hefði farið á því að félagasamtökin þrjú, sem þurfa að koma sér saman um tvo fulltrúa í ráðinu, og er ég þá að tala um Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands, hefðu fengið einn fulltrúa hvert í stað þess að þurfa að skiptast á um tvo fulltrúa. Það segi ég fyrst og fremst vegna þess að um tvö rótgróin félagasamtök er að ræða sem lengi hafa starfað að jafnréttismálum.

Kvenfélagasamband Íslands er samband allra kvenfélaga á landinu — ég hef ekki tölu á þeim en þau eru æðimörg og eiga enn fullt erindi — og ég tel fullkomlega eðlilegt og rétt að sambandið hafi fastan fulltrúa í Jafnréttisráði. Ég tel líka að hið 101 árs gamla Kvenréttindafélag Íslands hefði verðskuldað að eiga fastan fulltrúa í Jafnréttisráði og sömuleiðis hið nýja félag, Femínistafélag Íslands, sem kemur inn á vettvanginn með nýja strauma, ef svo má segja. Ég hefði talið fullkomlega eðlilegt að Femínistafélagið fengi sinn sjálfstæða fastafulltrúa í Jafnréttisráði. Ekki síst hefði mér þó þótt eðlilegt að Kvenréttindafélag Íslands, sem er 101 árs gamalt félag, eins og ég sagði, og hefur í gegnum þykkt og þunnt náð að halda á lofti baráttu fyrir jafnrétti kynjanna á Íslandi, hefði fengið sinn sjálfstæða og fasta fulltrúa.

Kvennaathvarfið og Stígamót hefðu í sjálfu sér einnig verðskuldað hvort sinn fulltrúa í ráðinu en eins og hv. formaður nefndarinnar sagði þarf að gera málamiðlanir. Ég veit að það var talsvert gagnrýnt þegar nefnd Guðrúnar Erlendsdóttur skilaði af sér tillögu um 18 manna Jafnréttisráð, menn voru alls ekki á eitt sáttir um það. Tillagan sem lögð var fram af ráðherranum um 8 manns hefur þó tekið þeim breytingum að nú er verið að tala um 11 manna ráð. Málamiðlunin er að mörgu leyti skiljanleg en sjálf hefði ég viljað geta gengið eilítið lengra. Ég þarf svo sem ekki að segja meira um Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Það kom fram í andsvari mínu hvaða augum ég lít þann mikla þekkingarbrunn sem þar er til staðar, hversu mikilvægt er að hafa hann aðgengilegan fyrir allt ráðið.

Mig langar hins vegar til að segja hér, hæstv. forseti, örfá orð um 15. gr. Það er ítrekað í framhaldsáliti nefndarinnar að ákvæði 15. gr. gildi um skipan Jafnréttisráðs. Mig langar að beina athygli fólks að því að í frumvarpinu sjálfu, á bls. 24, þar sem fjallað er um 15. gr., segir um undanþáguákvæðið í greininni að lagt sé til að tilnefningaraðila sé heimilt að víkja frá því skilyrði að tilnefna eigi bæði karl og konu og það sé síðan í verkahring ráðherra, ef ég man rétt, að velja á milli og tryggja að sem jöfnust kynjahlutföll séu í nefndunum sem heyra undir 15. gr. Þá er sagt að þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki sé mögulegt að tilnefna bæði karl og konu sé heimilt að víkja frá því ákvæði.

Dæmi um slíkt eru nefnd í textanum um 15. gr. og segir þar um félagasamtök þar sem félagsmenn eru nær eingöngu af öðru kyninu, svo sem hjá Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands, að víkja megi frá meginreglunni. Einnig er Félag ábyrgra feðra nefnt hér, sem hefur nú breytt um nafn og heitir Félag um foreldrajafnrétti, en þar eru karlar í miklum meiri hluta eins og kom fram við 2. umr. málsins. Þannig að þó svo að nefndin ítreki að ákvæði 15. gr. gildi um skipan Jafnréttisráðs vil ég benda á að undanþáguheimildin í greininni gildir um þau félög þar sem yfirgnæfandi meiri hluti er af öðru kyninu.

Ég vil einnig ítreka það sem ég sagði við 2. umr., fyrirvari Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við málið lýtur ekki hvað síst að hugmyndum um vottunarkerfi. Fram kemur í nefndaráliti, sem dreift var á þskj. 535, að vottunarkerfi fyrir framkvæmd jafnréttisáætlana og jafnlaunakerfa hjá þeim aðilum sem lögin ná til sé í sjálfu sér nýjung og ég er ekki farin að sjá að sú hugmyndafræði sem að baki liggur sé með þeim hætti að betri árangur náist í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna með því að setja slíkt vottunarkerfi upp. Ég er ansi hrædd um að þetta geti orðið þunglamalegt og fjárfrekt og að erfitt verði að framkvæma þessar hugmyndir. Ég hef því enn þær efasemdir sem ég lýsti hér við 2. umr. um þessar hugmyndir og það bráðabirgðaákvæði sem lýtur að þessu vottunarkerfi.

Ég er ekki sammála þeirri fullyrðingu, sem kemur fram í nefndarálitinu, að opinber vottunarframkvæmd jafnréttisstefnu ætti að geta orðið eftirsóknarvert takmark fyrirtækja og stofnana. Ég er hins vegar á því að það ætti að vera eftirsóknarvert takmark fyrirtækja og stofnana að tryggja jafnrétti kynjanna hver á sínu gólfi. Ég tel að það sé hugsjón fólks út um allt samfélag að uppfylla ákvæði jafnréttislaga. Því oftar og betur sem við tölum um þessi mál hér á Alþingi Íslendinga og því betur sem við gerum úr garði þau lög og þær reglur sem varða jafnrétti kynjanna, því meiri líkur eru á að stofnanir og fyrirtæki úti í samfélaginu viti hvað til þeirra friðar heyrir í þessum efnum og það sé í raun og veru sameiginleg skylda okkar allra að rétta hlut kvenna. Þetta snýst auðvitað fyrst og síðast um það.