135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:35]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sú breyting sem gerð var á þingsköpunum fyrir jól fól m.a. í sér að heimilt var að vísa málum til nefndar milli 2. og 3. umr. ef breytingar voru gerðar á málinu við 2. umr. þess. Það dugði og ósk aðeins eins þingmanns dugir til þess að fá það fram að málið fari aftur til athugunar milli umræðna í viðkomandi þingnefnd.

Ég tek alveg undir það sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um ágæti þess að þetta hafi verið gert. Það varð til þess að málið fékk frekari athugun í tilgreindum afmörkuðum þáttum þess sem nefndarmenn vildu ræða frekar og málið tekur breytingum sem eru til bóta að mati þeirra sem flytja breytingarnar og standa að þeim. Það er með þær breytingar eins og breytingarnar á þingsköpunum í vetur, að þær voru til bóta, virðulegi forseti, og það mætti hv. þingmaður hafa í huga.

Um það sem kemur fram í nefndaráliti þar sem nafn mitt er með fyrirvara vil ég segja að ástæðan fyrir honum er sú að ég er andvígur 2. mgr. í 15. gr. frumvarpsins og ég gerði grein fyrir því við 2. umr. málsins og greiddi atkvæði gegn því ásamt félögum mínum í þingflokki Frjálslynda flokksins. Þetta ákvæði var tekið til umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. og í nefndarálitinu að það er skýrt þannig að ákvæðin nái ekki til kosninga hjá hinu opinbera í ráð, nefndir og stjórnir heldur aðeins til tilnefninga. Það er út af fyrir sig til bóta að hafa þetta skýrt þannig að það liggi þá fyrir að þegar kosið er í nefndir á vegum sveitarstjórna eða annarra opinberra aðila þar sem fer fram beinlínis kosning gildi ekki ákvæði 15. gr., sem þýðir það að sá sem tilnefnir aðila eða hefur afl til að fá mann kjörinn ræður því einn hver er kjörinn og um það snýst málið af minni hálfu. Fyrirvarinn er sem sé til að halda til haga afstöðu minni sem gerð var grein fyrir við 2. umr. málsins og minna á að þetta ákvæði frumvarpsins tók ekki þeim breytingum að ég teldi rétt að falla frá henni. Ég ítreka hana því þannig að hún liggi fyrir. Það mun hins vegar ekki koma fram í atkvæðagreiðslu við 3. umr. því að þetta ákvæði frumvarpsins kemur ekki til atkvæða að nýju og ég og félagar mínir munum greiða atkvæði með þeim breytingartillögum sem nefndin stendur að að flytja og síðan greiða atkvæði með frumvarpinu í heild.

Ég vil aðeins víkja að skipan Jafnréttisráðs. Það kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að tiltekin samtök eiga að standa að tilnefningu í Jafnréttisráð, þ.e. Kvenfélagasambandið og Kvenréttindafélag Íslands og líklega einnig Stígamót og Samtök um kvennaathvarf, og þau væru undanþegin ákvæði 15. gr. um að tilnefna bæði karl og konu. Ég er ekki alveg sammála þessari túlkun þingmannsins á þessu ákvæði. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrðinu um að tilnefna bæði karl og konu þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Ég tel að þær ástæður eigi ekki við um þessa tilnefningaraðila því þessi félagasamtök hafa sínar eigin reglur og geta hagað þeim eins og þeim sýnist. Þeim er það algerlega frjálst að hafa samtökin opin fyrir karla og konur, þannig að ég kalla það ekki hlutlæga ástæðu sem heimilar undanþáguna ef samtökin neita að leyfa karlmönnum að vera aðilar að samtökunum. Ég held einmitt að það sé markmið þessara laga að brjóta niður slíka kynjamúra utan um einstök samtök. Ég held að það væri í anda þessara laga að þau samtök sem hv. þingmaður nefndi breyttu samþykktum sínum ef þess er þörf, ég þekki það ekki, það getur vel verið að það séu ekki neinar girðingar fyrir aðild karlmanna að þeim. Ef svo er finnst mér að til þess að þau vinni í anda þessa frumvarps verði þau að breyta reglum sínum og heimila karlmönnum aðild að samtökunum og tilnefna síðan í Jafnréttisráð bæði karl og konu. Þannig sækjum við fram í jafnréttismálum. Við sækjum ekki fram með því að viðhalda kínamúrum og aðskilnaðarstefnu í þjóðfélaginu, það er hið gagnstæða við það sem að er stefnt.

Ég gerði athugasemdir við skýringu á 1. gr., i-lið í frumvarpinu, um kynbundið ofbeldi, þar sem hún var einhliða, hún skilgreindi það ofbeldi aðeins þannig að í hlut ættu karlar og þolendur væru konur. Þessu hefur verið breytt í meðförum nefndarinnar þannig að það ofbeldi gildir auðvitað í báðar áttir sem eðlilegt er og ég fagna því að nefndin hafi tekið af skarið með það og við munum að sjálfsögðu styðja þá breytingartillögu eins og aðrar sem hér eru á þingskjalinu.

Ég vil þó segja og taka undir álit hv. þm. Hönnu Birnu Jóhannsdóttur, að skipan Jafnréttisráðs eða fjöldi þeirra sem þar sitja er allt of mikill að mínu viti. Það er verið að fara í ranga átt með því að fjölga úr 10 í 11. Að mínu viti ætti að fækka í Jafnréttisráði, niður í 5 eða 7, því að ef ráð á að vera skilvirkt þarf það að geta komið sér saman um meginatriði sem það fæst við og á tiltölulega skömmum tíma. Því fleiri sem í hlut eiga í þeirri vinnu þeim mun ólíklegra er að menn nái því að gera slíkt með nægilega skilvirkum hætti. Þess vegna er fjölgunin í ranga átt.

Stjórnmál eru auðvitað ekki bara að lýsa skoðun sinni og standa einn að henni, heldur eru þau list hins mögulega og það mögulega er auðvitað að ná samkomulagi. Það er alltaf afrakstur þess sem Alþingi gerir, það er samkomulag á milli flokka og á milli manna. Ég sagði við formann nefndarinnar þegar hann stóð frammi fyrir þeim vanda að það var stíf krafa um fjölgun í Jafnréttisráði að ég mundi standa að baki honum í þeirri niðurstöðu sem hann kæmist að, hann hefði það verkefni að reyna að gera tillögu um samkomulag sem hann teldi líklegt til að vera samþykkt og ég sagði einfaldlega við hann: Þegar þú ert kominn með tillögu sem þú telur að þú getir náð fram skal ég styðja þig. Þess vegna stend ég að því að greiða þessari tillögu atkvæði þó að hún sé ekki í þá átt sem ég tel skynsamlegt. Ég geri einfaldlega grein fyrir þeirri afstöðu og svo sjáum við bara til og vonandi reynist Jafnréttisráð vel starfhæft og afsannar allar hrakspár um það að með auknum fjölda nefndarmanna séu lakari starfsaðstæður í ráðinu en það verður að koma í ljós.

Ég vil þó benda á, sem er svolítið eftirtektarvert, sérstaklega fyrir okkur stjórnmálamennina, að umræðurnar hafa mikið til snúist um hverjir fái að vera í Jafnréttisráðinu og það hefur verið aðalhitinn í seinni hlutanum í umræðunni hér í þinginu um þetta mál. Þegar frumvarpið er lesið, og það er náttúrlega skrifað af kansellíinu, þá átta menn sig auðvitað á því að Jafnréttisráðið er ekkert aðalatriði í þessu. Í 9. gr. frumvarpsins, um hlutverk Jafnréttisráðs, stendur að það eigi að vera til ráðgjafar félagsmálaráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Það er eins konar ráðgjafarbatterí, rétt eins og Alþingi var í gamla daga þegar það var endurreist 1845, það var svona ráðgjafarþing. Þarna finnst mér svolítið verið að spila með stjórnmálamennina, að láta þá deila um þetta sem er ekki aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er auðvitað Jafnréttisstofan, það er kansellíið sjálft, embættismennirnir, þar liggja völdin, þar liggja verkefnin sem á að taka á. (Gripið fram í.) Ja, ég vil bara segja, virðulegi forseti, með Jafnréttisstofuna, að verkefni Jafnréttisstofu er að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Ég veit að þeir sem hafa haft mikinn áhuga á að komast í Jafnréttisráð hafa einmitt áhuga á því vegna þess að þeir vilja hafa hendur í eftirlitinu og geta látið til sín taka, en það er ekki þeirra hlutverk. Það er Jafnréttisstofa sem hefur það stóra verkefni að hafa eftirlit og veita stjórnvöldum ráðgjöf og koma á framfæri við ráðherra ábendingum og tillögum um aðgerðir. Það skiptir auðvitað miklu máli, það er stóra málið að hjá Jafnréttisstofu sé hæft fólk sem sinnir verkefnunum þar vel.

Mér finnst að mörgu leyti að þau verkefni séu pólitísks eðlis í sjálfu sér og ættu að vera á hendi Jafnréttisráðs fremur en Jafnréttisstofu. En svona eru hlutirnir orðnir, virðulegi forseti, og ég ætla ekki að reyna að snúa þessu við á lokastigum málsins í þinginu.