135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kom eiginlega fyrst og fremst hingað í ræðustól til að lýsa ánægju minni með að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sé ekki sagnfræðingur Alþingis og skrifar ekki sögu þess sem hér gerist. Sem betur fer geta menn kynnt sér afstöðu manna til þingskapafrumvarpsins og annarra mála sem komið hafa fyrir þingið í gögnum þingsins. Við gerðum grein fyrir okkar afstöðu til þingskapalaganna þegar þau komu til umræðu hér fyrir jólin í hnitmiðuðu máli og ég bendi þeim sem koma til með að kynna sér þessa umræðu þegar fram líða stundir að fara í þau rök sem við tefldum fram.

Að stilla okkur upp sem andstæðingum breytinga á þingsköpum er náttúrlega í hæsta máta mjög ósanngjarnt. Það er rangt og það er mjög ósanngjarnt. Við höfum beitt okkur fyrir breytingum á þingsköpum. Sitthvað hefur náð fram að ganga, meðal annars í þeim pakka sem samþykktur var núna í haust eða fyrir áramótin, en við höfum fært rök fyrir því hvers vegna breytingarnar sem þá voru gerðar í heild sinni væru því miður til þess fallnar að veikja stjórnarandstöðuna og hefðum viljað sjá allt aðrar áherslur þar inni.