135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:04]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það þannig að hér sé þá um ákveðna mismunun að ræða á milli þingmanna. Ég get ekki skilið svar hæstv. forseta með öðrum hætti. Þá erum við aftur komin að spurningunni um það hvort það frumvarp sem hér er um að ræða sé í samræmi við stjórnarskrá sem ég hef leyft mér að draga í efa og geri enn.

Ég tel að það skipti miklu máli að menn geri sér grein fyrir því að að meginhluta til er sama starfsálag á þingmönnum, óháð því hversu kjördæmi þeirra eru víðfeðm. Ég hef ekki fengið viðhlítandi röksemdir fyrir því að það réttlæti sérstaka aðstoðarmenn fyrir þingmenn úr dreifbýliskjördæmi eða fyrir þá sem eru fjarri Reykjavíkursvæðinu þó að það séu margir ferkílómetrar sem kjördæmið tekur yfir vegna þess að þingmaðurinn þarf eftir sem áður, vilji hann vera í sambandi við kjósendur sína að heimsækja þá. Og sem betur fer háttar þannig til í nútímasamfélagi að þeir miðlar sem eru virkasti samskiptamátinn í nútímalegu samfélagi eru jafntiltækir öllum þingmönnum. Þá skiptir ekki máli hvort kjósendurnir búa nálægt eða langt frá þingstað og á ekki að taka að einu eða neinu leyti tillit til þess að virkasti samskiptamátinn er með þeim hætti að hann er öllum þingmönnum jafntiltækur. Munurinn er hins vegar sá að þingmenn Suðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjördæmis þurfa, eðli máls samkvæmt, vilji þeir rækja starf sitt vel vera í sambandi við mun fleiri kjósendur en þingmenn þeirra kjördæma sem eiga að fá sérstaka aðstoðarmenn til að rækja þann starfa.