135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[18:53]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja og ítreka það að þegar hv. þingmaður las hér upp skilgreiningu Guðna Axelssonar prófessors á því hvað væri sjálfbær nýting — hún sagði eftir honum að það þýddi að hægt væri að nýta svæði í 100–300 ár með jöfnum hætti — þá er það nákvæmlega eins og hún lýsir þeim áformum á Hellisheiði, þau falla að því. Þess vegna er verið að hvíla þau á milli til þess að hægt sé að nýta þau með þessum hætti þannig að ég mundi fara varlega í að fullyrða það sem hv. þingmaður sagði.

Í öðru lagi, að því er varðar ágenga nýtingu, vek ég eftirtekt á því að hér í Reykjavík, af því að hv. þingmaður var að benda á að með góðri tækni hefði verið hægt að tífalda framleiðslu á orku úr Laugarnesi — að það var náttúrlega nýting sem var meira en ágeng, það var veruleg ágengni þar því að mikill (Gripið fram í.) niðurdráttur var í þeim holum í Laugarnesi, og það var ástæðan fyrir því að menn urðu, ásamt stækkun Reykjavíkur auðvitað, að ráðast í Nesjavallavirkjun. Það er niðurdráttur í öllum holum í Laugarnesi ef ég man rétt frá skólaárum mínum, hér á Reykjavíkursvæðinu.

Í þriðja lagi er algjörlega fráleitt að bera saman nýtingu íslenskra jarðhitasvæða og nýtingu hverasvæðisins í Kaliforníu á áttunda áratugnum. Þar var svo ofsafengin ágengni að þar var strax um að ræða, sökum hins óhefta kapítalisma, sterkan og mikinn niðurdrátt. Það leiddi til þess að menn misstu trú á jarðhitavinnslu og það er ekki fyrr en núna, þegar Íslendingar eru orðnir ráðgjafar — m.a. sá ágæti jarðeðlisfræðingur sem er nú einn af snillingum Orkuveitunnar, tel ég — og komu að því máli að aftur er að glæðast áhugi á því. Menn sækja til reynslu Íslendinga, þó að skömm sé, af meðferð og nýtingu jarðhitasvæða í útlöndum.

Í fjórða lagi, skáboranirnar. Mig langar að svara því sem hv. þingmaður sagði hér í miðræðu sinni sem ég hafði ekki tóm til að gera áðan. Hv. þingmaður spurði: Hvað er þá með skáboranirnar sem áttu að koma í veg fyrir að það yrði óhóflegur fjöldi hola? Það er einfaldlega þannig, eins og ég hef kynnt mér það mál, að menn eru á fullri ferð að nota skáboranir, þ.e. þeir eru að fara niður á sama tiltölulega litla borplaninu og bora í margar áttir. Hv. þingmaður ætti að fara upp í Orkuveitu og kynna sér alveg frábærar tölvutækar þrívíddarmyndir af því. Þar sést mætavel hvernig menn nota eitt borplan til að skábora í ýmsar áttir. Sú aðferð felur í sér stórkostlega vernd fyrir umhverfið, menn geta þá nýtt náttúruna og auðlindir í jörðu miklu betur án þess að laska yfirborðið.

Þetta vildi ég nú segja, herra forseti, en ég lýsi því aftur að ég er alveg sammála þeim varnaðarorðum sem hv. þingmaður hefur haft hér uppi. Það kann vel að vera að það sé rétt hjá henni að mönnum hafi orðið á einhver mistök. Þau hafa ekki til þessa verið stórvægileg, tel ég, engin sem ekki er hægt að leiðrétta að því er varðar þessa tækni og nýtingu sjálfra auðlindanna. Það er ekkert óeðlilegt við það, tel ég, menn eru að vinna sig áfram, æfingin skapar meistarann og þó að teorían sé góð er það praksísinn sem skapar hina raunverulegu þekkingu á því hvernig á að útfæra hana. Það hafa menn verið að gera með býsna góðum hætti. Það er eins og gengur að það verða stundum mistök, þannig eru öll mannanna verk, þau eru öll orpin undir það að mönnum geta orðið á mistök. Hv. þingmaður getur síðan haldið því fram að það hafi verið mistök að fara yfirleitt inn á sum svæði sem hún hefði viljað sjá til frambúðar algjörlega óröskuð. Það er virðingarvert sjónarmið, það er pólitískt sjónarmið og menn geta varið það eða gagnrýnt það. En ég held að menn geti ekki deilt um að hér á Íslandi hefur mönnum tekist mjög vel upp með nýtinguna. Ég er svo sammála hv. þingmanni að það væri æskilegt að fundnar yrðu leiðir til að nýta betur þá orku sem menn eru að finna í dag og vinna á jarðhitasvæðum.

Af því að hv. þingmaður velti því svo fyrir sér hvað mundi gerast ef öll þau álver yrðu ekki að veruleika sem hún segir að séu að fljóta í gegnum ráðuneyti mitt, þá vil ég bara segja hv. þingmanni að þessi iðnaðarráðherra spáir því nú að innan fárra ára komi til með að vanta miklu meiri orku en menn gera sér grein fyrir. Hingað sækja fyrirtæki sem ekki eru í hefðbundinni stóriðju en þarfnast mikillar orku, menga lítið eða miklu minna en þessi hefðbundna stóriðja,.s Ég vona að hv. þingmaður fái fregnir af því áður en næsta vika er liðin (Forseti hringir.) að þetta landnám er að hefjast á Íslandi.