135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

skattamál tengd byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

[15:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þannig er mál með vexti að þegar framkvæmdir hófust við Kárahnjúkavirkjun, þá miklu framkvæmd, varð fljótlega ljóst að stjórnvöld, eftirlitsaðilar og ýmsir opinberir aðilar voru harla vanbúnir til að takast á við þær aðstæður sem þar voru að myndast. Þar á meðal fóru að berast sögur af því að ýmislegt sem varðaði skráningu erlends vinnuafls og skattgreiðslur af launum erlendra starfsmanna væri ekki sem skyldi. Strax á 130. löggjafarþingi á árunum 2003–2004 lagði ég fyrirspurn fyrir þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, varðandi skattgreiðslur í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og spurði m.a. fjármálaráðherra hver væru að mati ráðherra helstu vandamál og álitamál sem upp kynnu að koma í sambandi við skattalega meðferð mála tengd þessari framkvæmd. Það er skemmst frá því að segja að þáverandi fjármálaráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra svaraði:

„Að mati ráðuneytisins eru engin sérstök álitamál eða vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar“ o.s.frv.

Þetta svar kom mér á óvart. Ég þóttist vita betur og á næstu þremur þingum endurtók ég þessa fyrirspurn við þáverandi og síðan núverandi hæstv. fjármálaráðherra og fékk alltaf sama vitlausa svarið. Auðvitað er það komið á daginn að þarna voru mál í miklum ólestri, sveitarfélög fengu ekki útsvarstekjur eins og vera skyldi og það sem alvarlegra er, ríkið klúðraði innheimtu á sköttum á af launum erlendra starfsmanna þannig að nú stendur eftir skuld upp á 1,5 milljarða kr. við fyrirtækið Impregilo. Þrátt fyrir hæstaréttardóm sem féll á síðasta ári hefur ríkið ekki enn, það ég best veit, innt greiðsluna af hendi og borgar núna 1 millj. kr. á dag í dráttarvexti.

Því er spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra: Mundi fjármálaráðherra í dag svara eins ef hann væri að því spurður hvort þarna væru einhver (Forseti hringir.) vandamál á ferðinni? Í öðru lagi: Hyggst hæstv. ráðherra fara að gera upp þessa skuld eða hefur hann í hyggju að halda áfram að borga 1 millj. kr. á dag í dráttarvexti?