135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

skattamál tengd byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

[15:07]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er auðvelt að svara því en í ljósi reynslunnar held ég að enginn gæti svarað eins og við svöruðum, bæði ég og fyrrverandi fjármálaráðherra á sínum tíma, þegar þetta mál var í umræðunni, enda reyndist síðan niðurstaða þessa máls vera á annan veg en ríkisskattstjóri úrskurðaði um á sínum tíma og á annan veg en niðurstaðan varð í héraðsdómi en síðan gildir auðvitað niðurstaða Hæstaréttar í þessu sambandi. Við höfum lagt til breytingar á lögum til að bregðast við því vandamáli sem þarna kom upp og vonandi kemur slíkt vandamál ekki upp aftur.

Í gangi hafa verið viðræður við fyrirtækið um þá stöðu sem upp var komin og án þess að fara ítarlega út í það þá töldu þeir sem með málið fara fyrir ríkið að þeir væru í viðræðum við fyrirtækið um það hvernig ljúka ætti þessu máli, og ef ég fer rétt með þá þingfesti lögmaður fyrirtækisins mál á hendur ríkinu. Ég held að það sé rétta orðalagið í þessu. Ríkið þarf auðvitað að gæta hagsmuna sinna í þessu. Fyrirtækið þarf að sýna fram á að það hafi raunverulega innheimt þessa fjármuni og til að hægt sé að greiða þá þarf að liggja fyrir hverjir standa á bak við þá skattskuld sem þarna er um að ræða. Loks koma einhver fleiri atriði inn í þetta sem gera málið flóknara og ekki er tími til að fara út í hér en við vinnum að þessu máli á þann hátt að við reynum að gæta hagsmuna ríkisins eins og best verður á kosið. Hv. þingmaður getur treyst því.