135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

endurskoðun samnings við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.

[15:19]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir það svar sem hér er komið fram um að endurskoðun á þjónustusamningi Kadeco eða Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og ríkisins sé þá hafin eða standi til. Það er gott að heyra. En ég undra mig svolítið á yfirlýsingu fjármálaráðherra og vil fá skýringu á henni, um hvernig hann telur að 100% ráðstöfun á söluverði eigna geti staðist fjárreiðulög. Hér er um að ræða eignir sem aldrei var gengið frá af hinu háa Alþingi að rynnu frá ríkinu til Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. En síðan er í þjónustusamningi beinlínis gert ráð fyrir því að félagið eignist allt andvirði eignanna.

Ef gengið hefði öðruvísi með sölu eignanna þannig að minna hefði selst þá væri staðan fjárhagslega vissulega önnur en í mínum huga væri brotið eitt og hið sama, að ráðstafa með þessum hætti eignum ríkisins með einföldum þjónustusamningi milli Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og ríkisins þannig að eignum (Forseti hringir.) sé mismunað þannig út úr ráðuneyti.