135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

sala eigna ríkisins á Keflavíkurflugvelli.

[15:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég held áfram með það mál sem hv. þm. Bjarni Harðarson beindi að hæstv. fjármálaráðherra. Við höfum hér tvö bréf, annars vegar frá fjármálaráðuneytinu, dagsett 28. janúar sl, til fjárlaganefndar og hins vegar álit Ríkisendurskoðunar frá 18. febrúar sl. um söluverð á eignum á Keflavíkurflugvelli sem þróunarfélaginu var falið að selja.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins segir að söluverðið hafi numið 12 milljörðum og 801 millj. kr. og að það hafi átt að bókfærast þá samkvæmt kaupsamningunum sem gerðir voru. Samkvæmt bréfi Ríkisendurskoðunar segir að þessar eignir hafi átt að bókfærast sem 15,7 milljarðar kr. Það er sú upphæð sem Ríkisendurskoðandi bar ábyrgð á á fundi með fjárlaganefnd og var höfð sem rök hér við afgreiðslu fjárlaga.

Nú vil ég minna fjármálaráðherra á að það var rangt sem hann sagði áðan, að þróunarfélagið ætti þessar eignir. Það er ekki rétt. Þróunarfélagið er með þær í söluferli fyrir hönd ríkisins. Til viðbótar þessu eru 2,9 milljarðar kr. sem samkvæmt fjárlögum sem voru samþykkt rétt fyrir jól áttu að koma inn á árinu 2007. En núna er tilkynnt að þeir komi ekki inn fyrr en á þessu ári þannig að þau fjárlög sem samþykkt voru rétt fyrir jól — og þá höfðu allar upplýsingar átt að liggja fyrir um þau — eru röng.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hverju sætir þetta? Er fjármálaráðherra að beita þingið blekkingum eða hvernig vill hann skýra þennan mikla mun sem þarna er upp á nokkra milljarða kr. sem stendur út af varðandi sölu (Forseti hringir.) á eignum ríkisins gegnum þróunarfélagið?