135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[15:44]
Hlusta

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Herra forseti. Hér er verið að ræða um frekari uppbyggingu stóriðju. Þessa umræðu verður að setja í samhengi við þarfir á frekari atvinnuuppbyggingu tiltekinna svæða, af hverju Þingeyingar og Norðlendingar sækja það stíft að nýta þá umhverfisvænu orku sem nötrar við bæjardyrnar til atvinnuuppbyggingar.

Þrátt fyrir tilkomu margra fyrirtækja og stofnana hefur íbúum í Þingeyjarsýslum fækkað mikið. Okkur sem búum á þessu svæði er alveg ljóst að það þarf meira til og brýn þörf er á meiri háttar atvinnuuppbyggingu til að okkur fjölgi aftur. Það er að sjálfsögðu markmið hvers sveitarfélags að vera sjálfbært um tekjuöflun. Sveitarfélögin þurfa að geta haldið uppi öflugri samfélagslegri þjónustu en það er deginum ljósara að eftir því sem fleiri sveitarfélög verða sjálfbær og meiri tekjur myndast, þess hagkvæmari verður rekstur þjóðarbúsins.

Einnig verður að líta til þeirrar landfræðilegu legu og aðstæðna sem við búum við. Auðvitað væri gaman að sjá sterkan háskóla rísa á Húsavík og að verðandi hátæknisjúkrahús verði staðsett í Norðurþingi en það er varla raunhæfur möguleiki eins og sakir standa vegna fjarlægðar frá meginþorra landsmanna. Þá er möguleikum varðandi atvinnuuppbyggingu í tengslum við nágrenni alþjóðaflugvallar ekki til að dreifa í Þingeyjarsýslum. En við getum m.a. nýtt okkur fyrrnefnda umhverfisvæna orku og landrýmið er nægjanlegt. (Forseti hringir.) Ég skora á ríkisstjórnina að koma fram með skýra stefnu og vinna með Þingeyingum og Norðlendingum öllum að því að styrkja byggðina og innviði hennar.