135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[15:46]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka þetta mál á dagskrá, ekki síst í því ljósi sem beinist að efnahagslífi landsins. Full þörf er á að ræða þessa hluti hér. Ef við höfum í huga á hverju þjóðin lifir, þ.e. nýtingu náttúruauðlinda, og setjum það í samband við vilja okkar allra til að efla velferð og stuðla að frekari rekstri og viðgangi þjóðarinnar hljótum við að spá í það með hvaða hætti við getum gert það og horfum þá til nýrrar verðmætasköpunar í samfélaginu. Eitt af því sem þar um ræðir hlýtur að vera stóriðja þar sem fyrirtæki eða einstaklingar vilja festa fé og láta það bera arð til hagsbóta fyrir sjálfa sig og ekki síður fyrir landið allt.

Við þessa umræðu er óhjákvæmilegt að taka þá líka afstöðu til þess hvort Íslendingar eigi að nýta þær auðlindir sem eru í landinu, bæði til lands og sjávar, til atvinnusköpunar, til verðmætasköpunar, til framfara fyrir samfélagið. Meðan aðrar þjóðir byggja tilvist sína á nýtingu auðlinda eins og olíu, gass eða kola þá nýtum við orkuauðlindir og auðlindir sjávar.

Hjá hv. 10. þm. Norðaust. kom vel í ljós vilji Norðlendinga til þess sem þar er að gerast. Mælir einhver í þessum sal gegn því að Norðlendingar nýti landkosti fjórðungsins til hagsbóta fyrir sjálfa sig, til að byggja upp betri búsetuskilyrði á Norðausturlandi, og ekki síður fyrir þjóðina alla? Enginn leggur hlutina væntanlega upp með þeim hætti að mæla gegn slíku og að sjálfsögðu eigum við þá að horfa til annarra kosta, tvímælalaust. Komið hefur fram í ágætri skýrslu eftir Benedikt Þorra Sigurjónsson, sem hann skrifaði um kostnað og ábatadreifingu vegna álversins á Húsavík, að sveitarsjóðurinn einn fyrir Norðurþing (Forseti hringir.) mun draga til sín 8 milljarða af núvirtum hagnaði bara við þessa einu framkvæmd. Og er þá ótalinn hagnaðurinn (Forseti hringir.) sem samfélagið hefur að öðru leyti.