135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[15:53]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það var dálítið sérstök staða sem blasti við ríkisstjórninni þegar hún tók við og blasti við Samfylkingunni þegar hún kom í iðnaðarráðuneytið. Staðan var sú að Framsóknarflokknum hafði með ævintýralegum hætti tekist að losa hið opinbera við öll þau stjórntæki sem það þó hafði fyrir árið 2003 til að hafa áhrif á stóriðjuuppbyggingu í landinu. Afleiðingarnar voru þær að í tíð Framsóknarflokksins í iðnaðarráðuneytinu var algert stjórnleysi, leyfaúthlutanir án heildarsýnar og hvað þá framtíðarsýnar. Við þetta búum við í dag og afleiðingar þess.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks er þegar farin að byggja þessi stjórntæki upp eins og fram kom í máli hæstv. iðnaðarráðherra áðan. Ekki verður, það hefur verið tekið fram, farið inn á óröskuð svæði meðan verið er að vinna og ljúka rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda. Ekki verða gefin út nein ný rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi fyrr en þeirri vinnu er lokið og síðan mun sú vinna verða afgreidd frá hinu háa Alþingi. Einnig er verið að vinna að, og það liggur fyrir þinginu, landsskipulagi sem Alþingi á eftir að fjalla um. Ég get nefnt fleira, svo sem yfirlýsingar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Virðulegi forseti. Með þessu hefur ríkisstjórnin dregið náttúruverndarlínuna í sandinn. Hún hefur dregið náttúruverndarlínuna í sandinn og það er alveg klárt að hér er á ferðinni ný nálgun gagnvart stóriðju í framtíðinni þar sem náttúran nýtur vafans.

Að lokum verð ég að segja að auðlindir eru auðvitað eins og allir vita ekki ótakmarkaðar. Við þurfum að horfa til þess að fara að móta orkupólitík, þ.e. hvernig við ætlum að nýta þá orku sem við erum að draga upp. Eins og staðan er í dag fara 80% til stóriðju og þegar á næsta ári verðum við farin að nýta einn þriðja af möguleikum (Forseti hringir.) okkar í nýtingu á orkuauðlindum. Þetta er eitthvað sem við þurfum að fara vel í gegnum.