135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[15:55]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér er. Umfjöllunarefnið er brýnt, einkanlega vegna þess að stefna stjórnvalda er ekki bara óljós og mótsagnakennd. Meira að segja hjá einum og sama stjórnmálamanninum, hæstv. iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, er ekki hægt að greina að um sé að ræða eina og samfellda stefnu. Nú fyrir nokkrum dögum lýsti hann því yfir í blöðum að hann vildi forgangsraða álverum, taka Bakka fyrst og Helguvík svo. Þegar við svo heyrum í honum í ræðupúlti í hinu háa Alþingi er hann búinn að gleyma því viðtali og þeim orðum sem þar eru. En aðalatriðið er þó að stefna stjórnarinnar er afskaplega þokukennd. Á sama tíma og hæstv. fjármálaráðherra gefur út yfirlýsingu um að nú sé að hefjast uppbygging á álverinu í Helguvík heyrum við yfirlýsingar samfylkingarmanna sem ganga þvert á það.

Þau orð að þessi álver séu komin af stað fyrir tilverknað Framsóknarflokksins ætla ég svo sem ekki að ræða sérstaklega. Framsóknarflokkurinn hefur átt sinn þátt í atvinnuuppbyggingu í landinu og skammast sín ekkert fyrir það. En varðandi stjórntækin, sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir vék að, þá hafa þau flest verið færð til í anda EES-samningsins. Við höfum verið sammála um það, mjög mörg, að fara eftir þeim samningi og ég vona að Katrín Júlíusdóttir sé okkur sammála um að fylgja honum.

Það skiptir miklu máli að fyrir liggi afstaða stjórnvalda til uppbyggingarinnar bæði á Bakka og í Helguvík. Á meðan hlutirnir eru eins og þeir eru í dag þá erum við að skapa mjög erfiða stöðu fyrir þau fyrirtæki sem vinna að þessum málum. Það er fráleitt að ætla að kenna stjórnarandstöðunni um, eins og heyrst hefur frá sumum og m.a. aðstoðarmanni hæstv. fjármálaráðherra, að óvissa sé í þessum málum. Óvissan er öll stjórnarinnar megin og það er brýnt að við fáum þar skýrar línur.