135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[15:58]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Eins og hv. þingmenn vita eru blikur á lofti í efnahagsþróun heimsins og þá ekki síður hjá okkur eins tengd og við erum orðin hinum stóra heimi hvað þau mál varðar. Það er þó eitt sem ekki hefur breyst að undanförnu, það er áhugi erlendra fjárfesta á því að fjárfesta á Íslandi og nota til þess innlenda orkugjafa.

Þegar við horfum til þess að bankar hér á landi eru settir undir hátt vaxtaálag og menn horfa á ýmsa lund gagnrýnum augum á það sem hér hefur verið að gerast þá er þetta afskaplega jákvætt. Ég held að það sé raunverulega fátt sem getur haft eins jákvæð áhrif á afstöðu erlendra aðila til okkar en það að teknar verði ákvarðanir um áframhaldandi erlendar fjárfestingar hér á landi, með því sýna aðilar fram á að þeir bera traust til þess sem hér er að gerast og eru tilbúnir að leggja fjármuni sína að veði til þess. Það mun að sjálfsögðu styrkja grunn fjármálafyrirtækjanna í útrás sinni og hjálpa þeim að vera með í upptaktinum þegar losnar um á fjármálamörkuðum heimsins.

Öll þau verkefni sem verið er að fjalla um, Helguvík, Þorlákshöfn og Bakki, þurfa auðvitað að fara eftir íslenskum lögum. Verið er að vinna að því og ekki von á öðru en af því komi réttar og góðar niðurstöður. Ég vil fá að vitna í orð hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra þar sem hann sagði: „Þá tel ég reyndar að við getum með stolti sýnt fram á, að með því að slík álframleiðsla færi fram á Íslandi og orkan væri raforka, en ekki kol eða olía og að hér væru ýtrustu hreinsunartæki notuð drifin með raforku, þá væri hér um það bil eins lítil mengun við álframleiðslu og hægt væri að hugsa sér yfirleitt í heiminum.“

Ég er sammála orðum þessa fyrrv. hæstv. samgönguráðherra, sem heitir Steingrímur J. Sigfússon. Ég held að við ættum að hafa þetta í huga, frú forseti, þegar við veltum þessum málum fyrir okkur.