135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[16:00]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að þessi umræða er komin hér á dagskrá. Víða á landinu er mikil þörf á nýrri atvinnuuppbyggingu. Það fer ekki á milli mála að t.d. byggðirnar á Miðausturlandi eru nú betur staddar í þrengingum sem vissulega stafa af minni þorskveiði og ef til vill loðnubresti vegna þess að þar hefur risið álver. Það hefur risið álver í Reyðarfirði sem komið er vel á veg, næstum í fullum rekstri. Þar er auðvitað alls konar atvinnuuppbygging sem tengist þessum iðnaði. Menn geta því ekki afgreitt iðnaðarkosti sem slíka á grundvelli þess að þeir skapi ekki forsendur fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu.

Hins vegar er það spurningin um forgangsröðun. Hvernig ætlum við að nýta orkuna? Hvar og hvernig ætlum við að nýta hana? Hvernig ætlum við að styrkja byggðir landsins með því að nýta orkuna og forgangsraða orkunýtingu?

Fólk hér á landi spyr nú þessa dagana hvað sé til ráða í atvinnumálum. Svörin liggja auðvitað ekki ljós fyrir í því óvissuástandi sem við horfum nú á. Við höfum sagt það í Frjálslynda flokknum að við legðumst ekki gegn því og styddum það að menn geti nýtt afl og atvinnukosti sína í heimahéruðum og horft þar til sinnar eigin orku. Í því sambandi höfum við m.a. bent á álver við Bakka við Húsavík og orku á Norðausturlandi.

Ef gamall bóndi væri spurður að því hvort hann mundi slátra kú til að bjarga fjölskyldunni sinni þá mundi (Forseti hringir.) hann sennilega svara: Já, ég slátra kúnni. Einhverju skal fórna til nýrra atvinnukosta.