135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[16:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ágætisráðstöfun að taka hér raforkumálin til umræðu eins og gert er nú á grundvelli gildandi laga og við erum væntanlega að gera í annað eða þriðja sinn með þessum hætti, á grundvelli skýrslu frá hæstv. ráðherra, og fara þá yfir meginlínur í sambandi við þróun og horfur í þeim efnum. Stjórnvöld geta þá eftir atvikum sýnt á spilin ef menn kjósa að nota tækifærið til að hafa framlag sitt að einhverju leyti stefnumarkandi. Hér er kannski frekar valin sú leið að reiða fram upplýsingar og það er út af fyrir sig lofsvert að sýnt sé á öll spilin, eins og hæstv. ráðherra hefur ítrekað sagt að sé gert með því að draga engin stóriðjuáform undan eða línulagnir jafnvel yfir miðhálendið og ég mun kannski víkja betur að því á eftir.

Ég held að það fyrsta sem eðlilegast sé að ræða sé náttúrlega meginskipulagið í þessum efnum og þar komum við strax að þeim breytingum sem urðu með innleiðingu orkutilskipunar ESB og þeirri markaðsvæðingu raforkukerfisins sem fylgdi í kjölfarið. Við þekkjum umræðuna um það hvort Íslendingar hefðu átt þess kost að fá undanþágu frá því í meira eða minna mæli og losna við þann fáránleika sem auðvitað var fólginn í því að fara að innleiða á Íslandi regluverk sem sniðið var að þörfum meginlands Evrópu og möguleikann á því að eiga viðskipti með rafmagn á þeim stóra samtengda orkumarkaði í Evrópu. Ísland sem einangraður orkumarkaður býr náttúrlega við allt aðrar aðstæður að öllu leyti, eignarhald allra orkufyrirtækjanna er að heita má opinbert og þar fram eftir götunum. Engu að síður var þetta gert og síðan hefur komið á daginn að möguleikar sem kunna að hafa verið til staðar eða kunna mögulega að verða til staðar í framtíðinni til að fá undanþágu fyrir Íslands hönd voru ekki nýttir.

Markaðsvæðing raforku eða orkumála hefur víða verið reynd með mjög blendnum árangri svo vægt sé til orða tekið. Það er ástæða til að það gleymist ekki að menn hafa lent í miklum hremmingum, bæði á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna, á orkumarkaði Norðurlandanna, í Evrópu, í Nýja-Sjálandi og víðar þar sem þessi hugmyndafræði hefur verið innleidd. Það sem víða hefur gerst er að menn hafa ekki bara fengið stórhækkanir á raforkuverði heldur hefur afhendingaröryggi minnkað, einkaaðilar hafa vanrækt eða reynt að komast undan því að fjárfesta í dreifikerfi og eðlilegri uppbyggingu og viðhaldi þess til að kreista sem mestan arð út úr fjárfestingum sínum. Afleiðingarnar eru rafmagnsleysi, verðhækkanir og óstöðugleiki sem sums staðar hefur leitt til þess að menn hafa orðið að þjóðnýta slík einkavædd orkukerfi á nýjan leik.

Hér segir hæstv. ráðherra að þetta hafi gengið nokkuð vel og fór í nokkru máli yfir það að raforkuverðið hefði þróast með hagstæðum hætti nema þá kannski helst í dreifbýlinu á svæði Orkubús Vestfjarða og til húshitunar á köldum svæðum. Ég ætla ekki að deila við hæstv. ráðherra um það en tilfinnanlegar eru þó þær hækkanir í öllu falli sem orðið hafa, en hitt ætla ég að segja að raforkuverð á Íslandi til almennra notenda er miklu hærra en það ætti að þurfa að vera. Auðvitað er það miklu hærra, að það skuli vera 10–12 og upp á þrettándu krónu kílóvattstundin til almennra notenda. Vegna þess að einn af kostunum við að búa í þessu landi með þeim ríkulegu auðlindum sem við höfum ætti að vera sá að við hefðum hérna mjög hagstætt orkuverð til almennra notenda og almenns iðnaðar sem ætti að gefa Íslandi verulegt samkeppnisforskot í þeim efnum. Það höfum við því miður ekki. Við getum sagt að við stöndum sæmilega að vígi þegar þessar töflur eru reiknaðar út miðað við sterkt gengi á krónunni en það er nú fljótt að fara og ætli þær væru ekki bara þó nokkuð verri í dag töflurnar sem sýna að orkuverð til almennra notenda sleikir rúmar 10 og upp í 12–13 kr. á kílóvattstundina á sama tíma og það rétt losar 10 í Finnlandi og Frakklandi t.d. en í báðum þeim löndum er kjarnorka stór hluti af framleiðslunni? Þetta er svipað eða lítið skárra verð og í Svíþjóð, Bretlandi og Evrópusambandinu ef við sleppum sérstökum sköttum sem þar eru lagðir á orku.

Þegar kemur að stærri notendum er staðan að vísu skárri og þó. Við erum þar með verð sem eru á bilinu 7 og upp undir 8 kr. á kílóvattstund til aflnotenda og það er hærra verð en í Svíþjóð, Finnlandi og Frakklandi, svo dæmi séu tekin. En það er einn aðili á Íslandi sem nýtur auðvitað algerra vildarkjara, það er stóriðjan. Það er ekkert um það hér. Þar er leyndarhjúpurinn sem menn manna sig ekki upp í að svipta af, þó að allir viti auðvitað hvert verðið er. Það liggur fyrir að í besta falli nær það því að vera 20–22 mill að meðaltali og ef við notum gengið 70 á dollarann er sú eining einn þúsundasti úr dollara, sem gefur þá 1,40 til 1,55 kr. á kílóvattstund til stóriðjunnar, nálægt þessu bili er verðið. Það er auðvelt að reikna það út og þá geta menn bara séð og svarað fyrir sig. Erum við sátt við þessu hlutföll? Erum við sátt við að það skuli vera svona himinn og haf milli þess sem almennir notendur borga, að maður tali nú ekki um fólk t.d. á dreifbýlisgjaldskrársvæðunum, og svo vildarkjara stóriðjunnar?

Það væri líka ástæða til að gera miklu rækilegar skil þáttum sem snúa að framtíðarhugmyndum okkar um þróun orkubúskaparins. Ég geri reyndar ráð fyrir að flokkssystir mín, Kolbrún Halldórsdóttir, sem hér er á mælendaskrá, komi hugsanlega eitthvað inn á það mál. En ég vil nefna hér líka spurninguna um að við gleymum ekki alveg sjálfstæðum markmiðum okkar um sjálfbæra þróun í orkumálum, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, um að bæta orkunýtingu og ástunda hér orkusparnað og hegðum okkur ekki eins og þetta sé ótakmörkuð auðlind og við getum leyft okkur að fara með hana eins og okkur sýnist, því að það er auðvitað ekki þannig. Það gengur býsna hratt á marga af hagkvæmustu, í skilningnum lægst framleiðslukostnaðarverð á einingu, virkjunarkostunum sem við eigum í því stóriðjufári sem hér hefur gengið yfir.

Evrópusambandið hefur sett sér það markmið sem vitnað er í í skýrslunni, og nú getur vel verið að hæstv. ráðherra vilji bara vitna í almenna markmiðssetningu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og það sé ástæðan fyrir því að hún er ekki með hér en hins vegar er markmiðssetning Evrópusambandsins, og það er þannig að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um a.m.k. 20% fyrir árið 2020. Íslendingar hafa sett sér markmið sem ef ég veit best miða við 2050 og ekki útfært hvað menn ætla þá að gera fram að 2020 nema þá svona að hengslast með eftir því sem kann að verða niðurstaðan í framhaldi af Balí-fundinum og ráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Evrópusambandið hefur sett sér markmið um að bæta orkunýtingu um 20% á sama tíma, að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í heildarorkunotkun verði 20% árið 2020. Nú geta menn sagt að Ísland sé þar í allt öðrum flokki, og það er út af fyrir sig rétt, en það breytir ekki því að að sjálfsögðu eigum við líka að huga að því að taka aðra orkugjafa en vatnsafl og jarðvarma inn í okkar orkubúskap. Það er t.d. alveg augljóst mál að vegna mikillar miðlunargetu í íslenska raforkukerfinu er lafhægt að nota hér 10, 15 og upp undir 20% vindorku. Við erum væntanlega ekki háð sömu takmörkunum og ýmsar aðrar þjóðir eru hvað það varðar að ráða við að nota óstöðuga vindorku sem tiltekið hlutfall af orkuframleiðslu sinni einfaldlega vegna þess að við höfum gríðarlega möguleika til orkumiðlunar í okkar kerfi. Og nægur er nú vindurinn á Íslandi. Og fleiri orkuform á að sjálfsögðu að huga að og taka í notkun eftir því sem skynsamlegt er frekar en t.d. að ganga á virkjunarmöguleika sem eru umdeildir eða ótækir frá umhverfissjónarmiðum.

Að lokum er Evrópusambandið með markmið um að auka hlutfall lífræns eldsneytis sem orkugjafa, sérstaklega í samgöngum, og að hlutfall þess verði um 10% af heildarorkugjöfum samgangna árið 2020. Þar mætti nú spyrja hvar við værum þá á vegi stödd með okkar fræga vetnissamfélag. Þó að við værum kannski ekki með plön, enda ekki ástæða til að setja okkur markmið af þessu tagi hvað varðar endilega lífrænt eldsneyti enda umdeilt og gerist jafnvel umdeildara en áður var í ljósi nýrra rannsókna og margs sem þessu tengist, þar á meðal samkeppni um gróðurland og áhrif á matvælaframleiðslu og svo líka efasemdir um að lífrænt eldsneyti sé í umhverfislegu tilliti jafnhagstætt og upphaflega var kannski talið. En þá eigum við aðra kosti sem væru þeir að umbreyta okkar orku yfir í aðra og hagstæðari orkumiðla eins og vetni eða metanól eða annað í þeim dúr.

Það heyrist lítið af vetnissamfélaginu og hv. fyrrverandi þm. Hjálmar Árnason sem var nú mjög í forsvari fyrir því máli hér er horfinn til annarra starfa. Satt best að segja held ég að það hafi kannski slegið mig dálítið út af laginu það mál allt saman og menn hefðu betur verið aðeins jarðtengdari í þeim efnum án þess að ég sé að gera lítið úr því að þeir möguleikar séu kannaðir eins og aðrir.

Hæstv. ráðherra nefndi hér hluti sem gaman væri að hafa tíma til að ræða ítarlega. Hann vísar til þess að það sé ástæðan fyrir því að álver í Helguvík og á Bakka og plön í Þorlákshöfn og styrking raflínu út eftir Reykjanesi og allt þetta sé hér til talið að hann hafi ekkert viljað undanskilja. Gott og vel. En þá langar mig að spyrja að tveim, þrem þáttum sem tengjast atriðum sem koma þarna fram. Hæstv. ráðherra nefndi Búðarhálsvirkjun og að Landsvirkjun hefði dustað af henni rykið. Það vill svo til að þessa virkjun hef ég nefnt ótal sinnum á undanförnum árum og spurt af hverju Landsvirkjun fari ekki frekar í Búðarhálsvirkjun heldur en að þjösnast áfram með ákaflega umdeild áform t.d. í neðsta hluta Þjórsár. En ég spyr líka: Hvers konar Búðarhálsvirkjun verður það? Ætlar ríkisstjórnin að láta Landsvirkjun halda áfram að hanna Búðarhálsvirkjun sem jafnvel heldur því opnu að taka vatn úr Skaftá í gegnum Langasjó? Ætlar ríkisstjórnin sem er reyndar með það svæði á friðunarlista að láta þetta opinbera fyrirtæki halda áfram að hanna Búðarhálsvirkjun sem gerir ráð fyrir vatni úr Þjórsárverum? Getur hæstv. iðnaðarráðherra svarað því og getur hann glatt mig með því að segja að það komi ekki til greina? Og sú Búðarhálsvirkjun sem Landsvirkjun á auðvitað bara að sætta sig við að ráðast í á að miða við og hannast miðað við núverandi rennsli og ekkert meira um það. Þá er sá draugur úr sögunni.

Ég vil svo líka nefna atriði sem hæstv. ráðherra nefndi hér reyndar sjálfur. Það er styrking byggðalínunnar sem ég hef verið áhugamaður um af ýmsum ástæðum. Ég tel að í því séu fólgnir kostir, bæði afhendingaröryggi raforku hvað varðar jafnrétti eða jafna stöðu landsmanna og möguleika til atvinnuuppbyggingar, að orkudreifingarkerfið geti afhent orku til atvinnuuppbyggingar eins og t.d. nú til aflþynnuverksmiðju á Akureyri sem ekki er viðráðanlegt við núverandi aðstæður. Ég tel að það megi draga úr tapi í kerfinu og að í raun megi líta á þetta sem umhverfisvænan virkjunarkost og opni möguleika á að ráðast að breyttu breytanda frekar í hagstæðustu virkjunarkostina ef staðsetningin er ekki lengur eins bundin og ófullnægjandi flutningsgeta kerfisins í dag gerir. En þá vil ég líka taka fram að í þeim hugmyndum er um að ræða styrkingu byggðalínunnar eins og hún liggur og að þar með tækju menn ákvörðun um að hafna hugmyndum um hund yfir hálendið. Ég vildi gjarnan fá að heyra afstöðu hæstv. iðnaðarráðherra til þess úr því að hann er með þetta hér á blaði sem eitt af því sem er í athugun hjá fyrirtækinu Landsneti. Má ekki treysta því að þær hugmyndir verði lagðar til hliðar? Brjálæðislegar hugmyndir um að fara með risavaxin háspennumöstur yfir miðhálendið, yfir Sprengisand, fram hjá Þjórsárverum, eða hvað?

Ég endurtek, og minni á það sem ég hef sagt um fyrirtækið Landsnet, að í mínum huga er einboðið að nota tækifærið og leysa hlut ríkisins í því út úr orkufyrirtækjum sem fara með eignarhaldið fyrir hönd ríkisins í dag, þ.e. Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða, og semja við samstarfsaðila, sem eru aðeins að mjög litlu leyti með í fyrirtækinu, og gera þetta að sjálfstæðu ríkisfyrirtæki óháð orkufyrirtækjunum sem framleiða eða selja orkuna. Það hefur í raun eintóma kosti og enga galla að ég fæ séð. Það er líka ljóst að með ríkið sem milliliðalausan eiganda þá er það fyrirtæki betur í stakk búið að ráðast í þær fjárfestingar og þá uppbyggingu sem við höfum verið hér að ræða um í formi styrkingar byggðalínu. Ég vil líka nefna að það eru verkefni sem verður að ráðast í sem tengjast styrkingu dreifikerfisins vestur á firði og tengjast dreifikerfinu út á norðausturhornið sem alls ekki annar þeirri flutningaþörf sem þangað er. Það háir t.d. stórum iðnfyrirtækjum á því svæði að ekki er hægt að skaffa þeim raforku til að setja upp rafskautskatla í staðinn fyrir olíukatla til gufuframleiðslu og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi tæpa á hér, virðulegi forseti, og svo fagna ég að lokum því ef væntanleg er úttekt á heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda eins og ég hef flutt tillögur um á tveimur síðustu þingum. Ég skildi hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra svo í umræðum fyrr í dag að væntanleg væri skýrsla frá Hagfræðistofnun háskólans þar um og það er lofsvert skref í rétta átt.