135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[16:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi skýrslu Hagfræðistofnunar þá er það góðra gjalda vert að hún sé á leiðinni en ég minni á að OECD hefur lagt til í skýrslum sínum undanfarin ár — sem ég hef margoft tekið upp á Alþingi og tekið undir og lagt til að farið yrði í — að sú úttekt yrði mjög opin. Hún yrði opin og gagnsæ og unnin þannig að um hana væri almenn umfjöllun. Ég hef ekki heyrt af þessari vinnu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrr og þykist ég þó fylgjast sæmilega með. Svo mikið er að minnsta kosti víst að ekki hef ég haft aðgang að því og ekki haft kost á að koma sjónarmiðum mínum þar fram.

Ég hefði haft gaman af því að setjast niður með hagfræðingum og leggja fyrir þá ýmsar spurningar og biðja um að ákveðnir hlutir yrðu reiknaðir út. Ég hef skrifað talsvert um þau mál og held að ég hefði getað jafnvel komið með spurningar sem væri þarft að bæri þar á góma.

Í sambandi við Búðarhálsvirkjun. Það skyldi nú ekki vera að það hafi ekki verið ein saman óhagkvæmni virkjunarinnar sem slíkrar eða kannski lítið eitt hærri framleiðslukostnaður en í allra hagkvæmustu virkjunum sem hafi valdið þrjósku Landsvirkjunar heldur sú von hennar að hún kæmist upp með það að lokum að fá vatnið úr Þjórsárverum og helst sjálfrennandi og að hún hafi viljað halda möguleikanum opnum líka fyrir vatni úr Skaftá gegnum Langasjó.

Það sem ég var að spyrja um og biðja um var að þessu opinbera fyrirtæki í 100% eigu ríkisins líðist ekki að hanna virkjun framan við augun á okkur sem gerir ráð fyrir þessum hlutum þegar það stendur meira að segja í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að það eigi ekki að gerast. Ég legg til að hæstv. iðnaðarráðherra fái hæstv. fjármálaráðherra til að senda eitt lítið lettersbréf til Landsvirkjunar og taka það fram þar að þetta komi ekki til greina, að göngin gegnum Búðarháls verði ekki víðari en svo að þau beri núverandi rennsli úr miðlunarkerfinu. Þetta er prýðilega hagkvæm virkjun og engin ástæða til að draga hana eftir því sem þörf er þá fyrir raforkuna til einhverra hluta sem sæmileg samstaða er um. Varðandi orkuverðið þá minni ég á að það liggur frumvarp fyrir Alþingi um að (Forseti hringir.) leyndinni verði aflétt.