135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:20]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal svara þessari síðustu spurningu alveg strax. Auðvitað er mengandi smáiðnaður ekkert betri en einhvers konar stóriðnaður. Það er líka hægt að sýna fram á það, og vonandi sjáum við merki þess fyrr en seinna, að hingað komi stóriðnaður sem hægt er að skilgreina sem orkufrekan sem er meira og minna mengunarlaus í þeim skilningi sem við leggjum í mengun. Það má heldur ekki gleyma því þegar við erum að tala um þessar áætlanir, t.d. um virkjanir, að menn verða líka að skoða saman áhrif margra smærri virkjana og bera það saman við áhrif stórra virkjana. Áhrif hinna stóru eru oft svo mikil að það slær fólk fast í upphafi en ef menn skoða hins vegar samanlögð áhrif af mörgum smærri virkjunum kann að vera að myndin sé töluvert öðruvísi.

Ég átta mig ekki alveg á því hvort hv. þingmaður var að spyrja mig að því, ef t.d. sneyddist um virkjanir eins og Bitruvirkjun, hvort ég teldi þá hugsanlegt að gengið yrði á möguleika almennings til þess að verða sér úti um orku. Ef það er rétt skilið tel ég að það sé alls ekki um það að ræða, almenningur hefur forgang í þessum efnum.

Hv. þingmaður spurði mig um djúpboranirnar. Ég get svarað henni því eins og ég hef reyndar sagt úr þessum stól að ég tel að það verkefni gangi of seint. Menn lögðu upp með góð áform og áætlanir fyrir nokkrum árum, það er ekki enn byrjað að bora. Sem betur fer eru nú þau föng sem þarf til þess að hefja boranirnar að koma hingað til lands og væntanlega verður það gert fyrr en seinna. Ég vek líka eftirtekt á því að fyrirhugað er að hefja slíkar boranir fyrr en menn ætluðu áður. Að minnsta kosti lá sú ákvörðun fyrir til skamms tíma eða var vilji til þess hér syðra, það skiptir máli. Ég tel hins vegar að í framtíðinni geti þetta skipt mjög miklu máli fyrir orkuframleiðslu hér á landi. Ég er reyndar sannfærður um að það gangi, ég treysti mér ekki til þess að segja hvenær en það eru örugglega — ég mundi segja tíu ár.