135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:27]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir allt sem fram kom hjá hæstv. iðnaðarráðherra hvað þetta varðar. Ég veit líka vel að íslenska orkan verður stöðugt eftirsóknarverðari í heiminum og það er alveg hárrétt að fyrirtækin líta á það sem ákveðinn gæðastimpil að nýta slíka orku í framleiðslu sinni, hvaða framleiðsla sem það nú er, það skiptir nefnilega ekki öllu máli. Aðalatriðið er að hún uppfylli þau skilyrði sem hér eru og eru í samræmi við það sem við viljum hafa á Íslandi.

Það er nokkuð sem ég gleymdi hreinlega að segja í fyrra andsvari mínu varðandi orkuspárnar og ég vil endilega að komi fram. Mér er alveg fullljóst að aldrei má ganga á almenna markaðinn, hann gengur alltaf fyrir og við megum ekki gleyma því hversu verðmætur hann er fyrir landsmenn. Þegar verið er að gera plön um áframhaldandi orkunýtingu — við getum alveg látið liggja á milli hluta fyrir hvað það er, hvort það er fyrir eitthvert netþjónabú, álfyrirtæki eða kísilfyrirtæki — ef við erum að tala um slíka uppbyggingu, t.d. á suðvesturhorninu, og þrengja fer að virkjunarkostum þar, þarf þá að líta einhvern veginn öðruvísi á þá orku sem þar er fyrir þessi fyrirtæki?

Eins og ég skil málið ætti að vera töluverð orka til að ráðast í framkvæmdir við hið umrædda álver í Helguvík en ég veit ekkert um það. Það er ekki neitt sem við eigum að vita nákvæmlega um. Horft hefur verið á ákveðin svæði í því sambandi og mér finnst eins og það sé ákveðinn vilji hjá orkufyrirtækjum til að draga sig aðeins út þar. Ég var bara að spá í hvort þeir ágætu menn sem skrifa orkuspána, og ég veit að þeir eru afar vandaðir í störfum sínum, hafi velt því sérstaklega fyrir sér. Ég á svo sem von á því að þeir hafi gert það.