135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:47]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra hefur viðurkennt að hafa tekið þetta í arf frá Framsóknarflokknum. Það eru mikil auðæfi og er mikilvægt að hvetja hann til að fara vel með þau auðæfi. Í rauninni var það svo í kreppunni árið 1995 að þá opnuðust hlið nýrra tækifæra á Íslandi í gegnum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Þar blasa við allt önnur verkefni en áður. Ég vil þakka þessa viðbótarræðu hæstv. ráðherra.

Ég tek undir með honum. Tímarnir breytast. Hver hefði trúað því á Suðurnesjum að þegar herinn færi með allt sitt hafurtask ættu menn gnægð tækifæra í kringum flugstöðina og flugvöllinn og vantaði fólk. Ég skil að menn á Suðurnesjum hugsi um álver í Helguvík og séu að undirbúa það en það þarf sinn tíma eins og annað.

Hið sama má segja um það sem menn sjá fyrir sér á Húsavík, á Bakka þar sem menn hugsa um rafmagn framleitt með jarðgufu og háhita. Það mundi auðvitað breyta Norðurlandi alveg eins og Kárahnjúkar og Reyðarfjörður hafa breytt Austurlandi.

Ég sé að hv. þm. Ögmundi Jónassyni líður illa undir þessari ræðu minni en hann verður að kyngja staðreyndum eins og aðrir. Ég vil óska þess að hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórn fari vel með þessi tækifæri. Þau eru íslenskri þjóð dýrmæt og mikilvæg til atvinnusköpunar. Ég er t.d. andstæðingur þess að leiða rafmagn í streng út í Evrópu og virkja hér villt og galið, sem stundum kemur upp hugmynd um. Ég tel að við eigum að hafa virðisaukann heima af öllu því sem við gerum, förum í verkið af hófsemd og virðingu og látum náttúruna njóta vafans í öllum tilfellum. En öllu þessu fylgir eitthvert rask. Lífinu fylgir eitthvert rask, hæstv. forseti.