135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[17:50]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er margt fróðlegt að finna í skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumálefni. Þetta er önnur skýrslan sem þinginu er flutt eftir að ný raforkulög voru afgreidd á Alþingi vorið 2004. Það er fróðlegt að bera saman þessar tvær skýrslur. Þær eru að mörgu leyti ólíkar. Sú fyrri ber mikinn keim af framkvæmdum sem þá voru að hefjast á Austurlandi og fjallar um afmörkuð málefni þar en sú sem hér er til umræðu er meira á almennari nótum.

Fyrst vildi ég nefna, virðulegi forseti, það sem kemur fram í formála skýrslunnar, að engar ákvarðanir liggi fyrir um frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi og því sé ekki gert ráð fyrir neinum slíkum framkvæmdum eða um þær fjallað í þessari skýrslu. Ég held að það þurfi aðeins að kalla eftir nákvæmari svörum frá hæstv. iðnaðarráðherra um það mál og því að ríkisstjórnin skýri betur hver stefna hennar er. Það hefur komið skýrt fram í ummælum tveggja ráðherra Sjálfstæðisflokksins, annars vegar hæstv. fjármálaráðherra og hins vegar hæstv. forsætisráðherra, að fullur hugur er til þess að ráðast í álversframkvæmdir við Helguvík sem allra fyrst og í framhaldinu við Bakka á Húsavík. Tímasetningar eru að minnsta kosti þannig í ummælum hæstv. forsætisráðherra að nokkuð ljóst er að hann gerir ráð fyrir því að Helguvíkurframkvæmdirnar verði á þessu kjörtímabili. Það hlýtur að þýða að þær eigi að hefjast ekki seinna en á næsta ári, helst á þessu ári og jafnvel að framkvæmdir við Bakka á Húsavík hljóti að hefjast á þessu kjörtímabili líka. Mér finnst vanta inn í skýrsluna upplýsingar um þau áform sem lýst hefur verið af hálfu þessara tveggja ráðherra.

Ósamræmið í ummælum ráðherra Sjálfstæðisflokksins annars vegar og hæstv. iðnaðarráðherra hins vegar kemur skýrar fram í fjárfestingaráformum sem gerð er grein fyrir á bls. 45 í skýrslunni. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir til undirbúnings álveri í Helguvík hefjist ekki fyrr en á næsta ári og standi 2010 og 2011 ef ekki lengur, sem er ekki í samræmi við það sem kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra. Ég hlýt að kalla eftir því hjá hæstv. iðnaðarráðherra hvort áætlunin á töflu 4.2 sé úrelt í þessari skýrslu, hvort áform ríkisstjórnarinnar hafi breyst frá því að gengið var frá þessum texta.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í skýrslunni á bls. 9 og 10 í kaflanum um vinnslu raforku. Þar er réttilega bent á að ráðherra geti endurskoðað ákvæði virkjunarleyfis, endurskoðað ákvæði þeirra virkjunarleyfa sem þegar hafi verið gefin út og bætt í þau nýjum ákvæðum ef hann telur það nauðsynlegt til að tryggja heildarhagkvæmni orkunýtingar vatnasviðsins eða jarðhitasvæðisins og væntanlega öðrum atriðum, eins og fram kemur ofarlega á bls. 10, t.d. nýtingu endurnýjanlegra orkulinda auk skilyrða er lúta að umhverfisvernd, landnýtingu, tækni og fjárhagslegri getu virkjunarleyfishafa. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita þessari heimild sinni til að taka upp eitthvað af útgefnum virkjunarleyfum og endurskoða þau. Mér finnst fyllsta ástæða til að skoða þau mál af hálfu nýs ráðherra sem kemur að þessum málaflokki, sérstaklega ráðherra frá flokki sem ekki hefur verið í ríkisstjórn og ekki komið að þessum málum. Auðvitað er eðlilegt að ætla að sá flokkur vilji setja mark sitt á það sem gera skal á næstu árum, bæta við skilyrðum eða breyta leyfum og annað slíkt. Mér finnst ekki óeðlilegt að inna ráðherrann eftir því hvort hann hyggist nýta sér þá heimild sem hér er sagt frá að sé í lögunum.

Ég vil svo segja, virðulegi forseti, um það sem mér finnst vera meginefni skýrslunnar, þ.e. mat á áhrifum af kerfisbreytingunni frá 2004, sem var nokkurs konar markaðsvæðing raforkukerfisins. Mér er minnisstætt að þegar gengið var frá löggjöfinni á vordögum 2004 voru mestar áhyggjur af hálfu þeirra sem óttuðust breytingarnar að raforkuverð á höfuðborgarsvæðinu mundi hækka mikið í kjölfar breytinganna. Það voru miklar fréttir fluttar af því á þeim vikum, að svo og svo miklar verðhækkanir gætu orðið á raforku á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er mjög athyglisvert sem kemur fram í skýrslu hæstv. ráðherra, að verð á raforku hefur alls ekki hækkað á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við ótta manna þá. Það kemur t.d. fram að raforkuverð hefur á árabilinu 2005–2007 hækkað um 0,8% hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem er langt innan þeirra marka sem menn óttuðust. Segja má að skýrslan dragi fram að kerfisbreytingin leiddi ekki til verðhækkunar á raforku á höfuðborgarsvæðinu eins og óttast var á þeim tíma. Ég held að menn geti glaðst yfir því að svo varð ekki.

Hins vegar sýnir skýrslan það sem minna var talað um í fjölmiðlum á þeim tíma, að það er óvíst að kerfisbreytingin hafi verið til góðs að öllu leyti. Það er nokkuð ljóst að verðhækkun hefur orðið í dreifbýlinu vegna þess að bæði Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða ákváðu að hafa tvær gjaldskrár, nýta sér heimildir í lögum til að hafa sérstaka dreifbýlisgjaldskrá. Orkuverð á þeim svæðum hefur hækkað nokkuð. Þar hefur kerfisbreytingin verið óhagstæð vegna þess að áður tóku raforkunotendur í þéttbýli þátt í að borga flutning á raforku út í dreifbýlið, sem þeir gera ekki í dag.

Ríkið ætlaði á þeim tíma að mæta fyrirsjáanlegri verðhækkun á dreifbýlinu með beinum niðurgreiðslum upp á 230 millj. kr. Þegar maður skoðar þessar tölur sést að í fyrsta lagi hefur fjárhæðin staðið í stað öll árin. Hún hefur því rýrnað að verðgildi og í öðru lagi hefur hún ekki dugað til að vega upp á móti gjaldskrárhækkunum. Dreifbýlið býr við verðhækkun vegna kerfisbreytingarinnar, vegna þess að innri verðjöfnun í kerfinu var afnumin. Mér finnst slæmt, virðulegi forseti, að það hafi gerst. Ég vonaði að svo mundi ekki verða og þær yfirlýsingar sem gefnar voru á þeim tíma gengu út á að fara frá innri verðjöfnun yfir í beina niðurgreiðslu úr ríkissjóði sem mundi þýða að dreifbýlið væri jafnsett. Það hefur því miður ekki gerst.

Ég vek athygli hæstv. iðnaðarráðherra á þessu. Ég veit að honum er umhugað um stöðu dreifbýlisins og hann væri vís með að taka þetta mál upp og beita sér fyrir því að eitthvað af verðhækkuninni í dreifbýlinu gangi til baka.

Annað sem hefur auðsjáanlega gerst lýsir því að samkeppnin er ekki almennilega virk í kerfi okkar, þ.e. hve fáir notendur hafa skipt um raforkusala, eins og ráðherra rakti að nokkru leyti í ræðu sinni og kemur fram á bls. 16. Þar kemur fram aðeins 0,35% af heildarfjölda notenda á Íslandi skipti um raforkusala árið 2006. Í Danmörku var talan 1,5%, í Finnlandi 3,9%, í Noregi 11,5% og í Svíþjóð 7,8%. Þetta segir okkur að ekki sé nægileg samkeppni á þessum markaði innan lands.

Í skýrslunni eru einnig upplýsingar um að þróunin á Norðurlandamarkaðnum, sem frekar hefur samkeppniseinkenni en sá íslenski, er að samþjöppun eykst og orkuframleiðslan færist á hendur fárra stórra fyrirtækja. Þar er um að ræða bæði sameiginlegt eignarhald og töluvert krosseignarhald sem leiðir af sér ýmis samkeppnisleg vandamál. Þegar við skoðum íslenska raforkumarkaðinn, sem er bara brot af markaðnum á Norðurlöndunum þá hljótum við að átta okkur á því að líkurnar á umtalsverðri samkeppni eru afar litlar hér á landi. Menn ættu að velta því fyrir sér hvort þessi vegferð, sem á að byggjast á samkeppni, sé yfir höfuð líkleg til að skila árangri og hvort ekki væri betra að hafa meiri opinbera stjórn á þessum markaði og eignarhaldi á fyrirtækjunum og opinbera stjórn á verðlagningu. Ég hallast að því, virðulegi forseti, í ljósi þeirra upplýsinga að telja að opinber stjórn á þessu sé vænlegri til lengri tíma en að treysta á samkeppni sem ekki er fyrir hendi.

Mig langar að benda á að ég beitti mér fyrir því vorið 2004 sem formaður iðnaðarnefndar að breyta frumvarpi ríkisstjórnarinnar þannig að það yrði ekki, eins og til stóð, heimilt að selja hlutabréf í Landsneti til annarra en þeirra sem upphaflega áttu að leggja inn í það eignir. Áður var gert ráð fyrir því að nýir aðilar gætu komið inn í Landsnet og eignast hlut í fyrirtækinu en það var afnumið. Þar með var ljóst í gildandi lögum að það eru bara opinberir aðilar sem eiga í þessu fyrirtæki. Ég held að það hafi verið skynsamleg ákvörðun á þeim tíma. Ég sé engar vísbendingar um það í skýrslu hæstv. ráðherra að leggja eigi til breytingu á þessu og ég fagna því.

Virðulegi forseti. Af mörgu er að taka en mig langar að nefna flutninginn og öryggið. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að á Snæfellsnesi og Vestfjörðum búa menn við áberandi lakasta afhendingaröryggið. Það háir þessum landshlutum báðum en þó Vestfjörðum sýnu meira. Aðeins ein lína sem tengir Vestfirði við raforkukerfi landsmanna og hún er mikið úti vegna veðurálags. Ég legg til, virðulegi forseti, að það verði hugað að því. Reyndar sé ég í skýrslu hæstv. ráðherra að þetta eigi að nokkru leyti við um Norðurland.

Ég held að skynsamlegt væri að treysta kerfið, m.a. að auka eigin raforkuframleiðslu Vestfirðinga. Þeir þurfa að flytja langmest af þeirri orku sem þeir nota eftir byggðalínunni. Í öðru lagi held ég að skynsamlegt væri að auka raforkuframleiðslu á höfuðborgarsvæðinu til að draga úr þörfinni fyrir að flytja raforku frá Norðurlandi og suður þannig að meiri raforka verði á þessum tveimur svæðum sem greinilega þurfa á orkunni að halda.

Í skýrslu sem liggur fyrir um flutningskerfi Vestfjarða er greint frá ýmsum hugmyndum um hvernig eigi að styrkja kerfið og ég vænti þess að hæstv. ráðherra fari yfir þá valkosti í ræðu sinni síðar í þessari umræðu. Ég held að það sé afar nauðsynlegt að ráðast í þær framkvæmdir. Ég vil bæta við einni hugmynd sem ekki er að finna í þeirri skýrslu sem ég held að sé ekki síður nauðsynlegt að taka alvarlega, þ.e. að raforkukerfi Vestfjarða verði hringtengt þannig að það fari ekki bara frá Hrútatungu um Barðastrandarsýslu og Mjólká og þaðan norður um Djúp heldur frá Ísafirði inn Ísafjarðardjúp yfir í Strandasýslu og þaðan suður Strandasýslu aftur í Hrútatungu. Ég held að slíka hringtengingu vanti í raforkukerfi Vestfirðinga til að tryggja öruggari aðflutningsleiðir. Menn hefðu þá tvær leiðir til að tryggja orkuna um tvö ólík veðursvæði sem ætti að leiða til þess að afhendingaröryggi yrði ásættanlegt.