135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:07]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að miðað við þessar tölur í skýrslunni hefur verð á raforku ekki fylgt vísitölu þannig að líklega er um að ræða einhverja lækkun að raungildi og það er út af fyrir sig gott.

Það sem ég óttast kannski dálítið í þessu máli hvað varðar markaðsvæðingu raforkukerfisins — ekki það að ég sé andvígur því að taka upp markaðsvæðingu, ég held að það sé skynsamlegt — það sem ég held að gerist er að þetta virki ekki. Markaðurinn er of smár til þess og það eru of fáir neytendur á markaðnum til að þetta virki raunverulega í þeim mæli að það haldi niðri verðlagningunni sem þarf að vera. Það er hagur neytenda ef samkeppni leiðir til þess að verð lækki. Við sjáum það t.d. á íslenska fjármálamarkaðnum að það er eðli kapítalistanna að skaffa ekki vöruna á sem lægstu verði heldur að fá sem mestan gróða fyrir sig og þegar þeir komast upp með að selja vöruna háu verði gera þeir það. Það er auðvitað töluvert svigrúm á raforkumarkaðnum, ef horft er á hann einan og sér, til þess að hækka verðið vegna þess að kaupgeta íslensks almennings er mikil. En ef menn fá að leika mjög lausum hala í þessu efni getur það leitt til þess að orkusalar fari að nýta aðstæður til þess að hækka verðið alveg eins og vextir af fjármagni hér á landi eru miklu hærri en erlendis vegna þess að það vantar samkeppnina. Það vantar aðstæður til að halda aftur af því. Við sjáum það t.d. á öðrum vörum, eins og fatnaði og öðru slíku, sem hingað eru fluttar inn án nokkurra tolla af hálfu íslenska ríkisins að þær hafa hækkað mjög mikið í verði og eru langtum dýrari en efni standa til vegna þess að það er engin almennileg samkeppni á markaðnum.