135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:24]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugavert innlegg hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um stöðu orkumála hvað varðar nýtingu. Hún dró sérstaklega fram þann þátt að stóriðjan svokölluð, eða sú atvinnustarfsemi, væri mjög orkufrek. Orkufrekur iðnaður, eins og við ættum kannski að kalla það, er mjög stór hluti af orkumarkaðinum. Tvö álver eru undir og það þriðja á leiðinni og járnblendiverksmiðja líka. Það er alveg rétt að þetta er mjög stór hluti af framleiðslu rafmagns í landinu og hefur verið lengi. Það er ekkert nýtt, það hefur verið lengi.

Ég held að það sé ágætt að hafa í huga — og nú er ég ekki að gera lítið úr því að við tökum orkupólitíska umræðu, ég mundi fagna því að taka þátt í slíkri umræðu — að hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur sú uppbygging sem hefur orðið á raforkukerfinu í landinu, sú staðreynd að við erum með hringtengingu í raforku, að flutningskerfið er svona sterkt, að línurnar eru svona kröftugar, orðið vegna þess að ákveðin atvinnustarfsemi bar þann kostnað okkur öllum til hagsbóta, skapaði okkur útflutningstekjur, skapaði okkur Íslendingum sjálfum öruggara rafmagn. Þetta eru atriði sem ég held að sé ágætt að hafa í huga þegar við ræðum framhaldið.

Nú liggur fyrir að orkufyrirtækin eru að leita að frekari möguleikum og ég held reyndar að þau hafi gert það lengi. Þá kemur alltaf þessi vandi, og ég held að það sé ágætt að hafa það í huga, og ég vil taka fram að ég vil ekki fara að tala sérstaklega um netþjónabú eða álframleiðslu eða járnblendi eða hvað sem er í þessu, en það er eindregið skoðun mín að við verðum líka að horfa til þess að þau atvinnutækifæri sem koma út af orkunýtingu, ef við teljum okkur vilja nýta orkuna, (Gripið fram í.) eiga ekki síður að gefa störf handa fólkinu. Það verða að fylgja þessu störf til að standa undir áframhaldandi hagsæld í landinu.