135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:30]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Ólöf Nordal séum að tala alveg sama tungumál vegna þess að enginn er að segja þegar við tölum um að horfa til nýrra atvinnugreina, að horfa til framtíðar að það eigi að gera á kostnað þeirra greina sem fyrir eru, gera á kostnað þeirra framleiðslugreina sem eru í landinu. Það sem um er að ræða og ég er að segja er að við þurfum að marka okkur stefnu í því hvernig við ætlum að nýta orkuna. Ég er þeirrar skoðunar að 77% eða 8% í einum iðnaði eins og staðreyndin er á þessu ári hér á landi í dag af okkar orkunotkun sé of mikið. Vegna þess að við erum búin með það mikið af þeirri orku sem sérfræðingar telja að við getum náð úr þeim auðlindum sem við eigum núna, þ.e. jarðvarma og vatnsafli, þá eigum við að staldra við og marka stefnu um það hvernig við viljum nýta það sem eftir er. Síðan geta djúpboranirnar komið með heilmikla orku upp og þá er það bónus. En við þorum ekki og ég þori því ekki frekar en aðrir hér inni að taka tillit til þeirra, þ.e. að setja þau inn í spárnar. En vonandi bæta þau síðan við heilmikilli orku sem við þurfum og þá getum við byggt enn frekari framtíðarsýn á þeirri mögulegu orku sem upp úr þeim kemur.

En ég kalla eftir því, virðulegi forseti, að við, eins og Orkuveita Reykjavíkur er að fara, eins og Landsvirkjun er að fara, ræðum í alvöru hversu hátt hlutfall við viljum nýta til ákveðinnar atvinnustarfsemi og hvort við viljum ekki taka til hliðar örlítið af okkar orku og auðlindum og nýtingu í annars konar starfsemi til að byggja upp og hleypa inn í landið annars konar atvinnustarfsemi þannig að öll eggin séu ekki í sömu körfu eins og menn hafa hér rætt um.